Umfjöllun, viðtöl og myndir: KR - Þór Ak. 93-68 | Auðvelt hjá meisturunum

Anton Ingi Leifsson í DHL-höllinni skrifar
Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, tekur skot.
Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, tekur skot. vísir/laufey
KR rústaði Þór Akureyri í Dominos-deild karla í kvöld, en leikurinn var liður í fimmtu umferð deildarinnar. Lokatölur 93-68, en KR leiddi með 35 stigum í hálfleik, 62-27.

Þór byrjaði ágætlega og var bara tíu stigum undir eftir fyrsta leikhluta, 24-14, en þeir spiluðu ágætlega framan af. Pavel Ermolinskij og Brynjar Þór Björnsson fóru báðir af velli vegna meiðsla í fyrsta leikhluta.

Í öðrum leikhluta opnuðust flóðgáttir. KR spilaði þvílíka pressuvörn sem gestirnir réðu bara nákvæmlega ekkert við. KR vann hvern boltann á fætur öðrum og ungir og spennandi strákar drógu KR-vagninn áfram. 62-27 í hálfleik.

Eftir það var ljóst að stigin tvö sem í boði voru yrðu eftir í KR-heimilinu. Það var bara spurning um hvort að Þórsarar kæmu með ögn meiri baráttu og gleði inn í síðari hálfleikinn en þeir sýndu í fyrri hálfleik.

Aðeins bjartara var yfir Þórsurum í síðari hálfleik sem voru meira tilbúnari í verkefnið í fyrri hálfleik. Sigurinn var þó aldrei spurning og lokatölur 93-68.

Afhverju vann KR?

Miklu betri varnar- og sóknarlega. Einfaldlega bara miklu betra lið, meiri breidd og menn sem voru tilbúnir í verkefnið. Þeir spiluðu pressuvörn í fyrri hálfleik sem Þór réð ekkert við, eins og áður hefur verið sagt, en margir leikmenn voru að leggja í púkkinn hjá KR í dag.  

Hverjir stóðu upp úr?

Það er erfitt að draga einhvern út úr KR-liðinu. Ungir og spennandi leikmenn sem hafa kannski ekki fengið mörg tækifæri, en þeir voru margir sem nýttu þau í kvöld til að mynda Andrés og Orri. Stigahæstur þó var Sigurður Þorvaldsson með sautján stig, næstur kom Björn Kristjánsson með 13.

Hjá Þór voru Marques Oliver, Ingvi Rafn Ingvarsson og Júlíus Orri Ágústsson stigahæstir. Þeir báru höfuð og herðar yfir aðra leikmenn liðsins og lengstum af bara Marques og Ingvi. Júlíus tók við sér undir lokin.

Hvað gekk illa?

Allt hjá Þór, sér í lagi í fyrri hálfleik. Skelfilegur sóknarleikur, ef sóknarleik mætti kalla, þar sem þeir varla komust fram yfir miðju. Þetta var eins og drengir á móti karlmönnum í fyrri hálfleik, en varnarleikur Þór var ekki til að hrópa húrra fyrir heldur. Aðeins þrír leikmenn skoruðu í fyrri hálfleik og þar af Júlíus tvö stig. Leikur einn fyrir KR.

Hvað gerist næst?

Næstu leikir liðanna eru bikarleikir í Malt-bikarnum. KR fær fyrstu deildarlið Vestra í heimsókn í DHL á sunnudag, en Þór fær Hött í heimsókn. Í deildarkeppninni er stórleikur hjá KR næst gegn Grindavík á útivelli á meðan Þór fær Njarðvík í heimsókn. Þessir leikir eru eftir slétta viku.

KR-Þór Ak. 93-68 (24-14, 38-13, 19-23, 12-18)

KR: Sigurður Á. Þorvaldsson 17/5 fráköst, Björn Kristjánsson 13/4 fráköst, Kristófer Acox 12/6 fráköst, Jalen Jenkins 11/4 fráköst, Andrés Ísak Hlynsson 11/4 fráköst, Orri Hilmarsson 10/5 fráköst, Darri Hilmarsson 7, Arnór Hermannsson 4/7 stoðsendingar, Benedikt Lárusson 3, Brynjar Þór Björnsson 3, Karvel Ágúst Schram 2, Pavel Ermolinskij 0/5 fráköst.

Þór Ak.: Marques Oliver 17/8 fráköst, Ingvi Rafn Ingvarsson 16, Júlíus Orri Ágústsson 14/5 fráköst, Pálmi Geir Jónsson 7/8 fráköst, Bjarni Rúnar Lárusson 5, Svavar Sigurður Sigurðarson 5, Sindri Davíðsson 2, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 2, Einar Ómar Eyjólfsson 0, Sigurður Traustason 0, Baldur Örn Jóhannesson 0, Ragnar Ágústsson 0.

Björn: Stórleikur gegn Vestra á sunnudag

„Það má segja að þetta hafi verið auðvelt, en þetta var alls ekki gefins,“ sagði Björn Kristjánsson, leikmaður KR, í samtali við Vísi eftir stórsigurinn.

„Við erum búnir að vera hamra á því í síðustu leikjum að koma sterkir út í leikinn og loksins gerðum við það frá fyrstu mínútu og náðum að halda út fyrri hálfleikinn.“

„Þetta datt svo aðeins út í síðari hálfleik en mjög góður sigur,“ sagði Björn. KR spilaði agressíva pressuvörn. Var það eitthvað sem liðið hefur verið að æfa síðustu daga sérstaklega?

„Nei, ekki æfa það mikið, en við erum búnir að fara yfir það og okkur finnst gaman að henda því inn sérstaklega eftir víti og svona. Það var að virka vel í dag.“

Margir ungir leikmenn stigu upp í kvöld og margir þeirra gripu tækifærið vel. Björn var ánægður með þá.

„Ungu strákarnir komu með enn meiri kraft ef eitthvað var heldur en við sem byrjuðum inn á og það var bara geggjað að sjá þá koma með svona mikinn kraft af bekknum.

„Það hjálpar okkur að taka levelið hærra,“ sagði Björn en á tímapunkti var hann langelstur á vellinum. Hann vissi ekki alveg hvort það væri satt og rétt:

„Er ég orðinn það gamall? Greinilega. Maður er að detta í eldri kantinn, ótrúlegt en satt.“

KR er með átta stig af tíu mögulegum, en stefnan er alltaf sett hærra í Vesturbænum: „Sjálfsögðu. Það er stórleikur á sunnudag gegn Vestra og svo nokkrir erfiðir í deildinni svo við þurfum að vera kárir.“

Hjalti: Verður fjör á Akureyri

„Við bara höfðum ekki trú á verkefninu og þess vegna komum við svona hálf vandræðalega inn í leikinn,“ sagði fámáll Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs, í leikslok.

„Þegar þú ert alltaf hörfandi til baka þá skiptir það ekki máli hvort það sé pressuvörn eða maður á mann eða hvað sem er, þá leysum við ekki neitt,“ sagði Hjalti aðspurður út í hvort að pressuvörn KR hafi gert útslagið.

„Þegar maður hefur ekki trú þá berst maður ekki og reynir ekki að vinna. Það var í rauninni bara það sem gerðist hérna í dag.“

Þórsarar voru skelfilegir í fyrri hálfleik, en í síðari hálfleik voru þeir þó aðeins upplitsdjarfari og tilbúnari í verkefnið.

„Plús í kladdann fyrir síðari hálfleikinn. Við reyndum og börðumst og lögðum okkur fram, en þegar þú ert ekki klár í byrjun þá er erfitt að gíra sig upp í síðari hálfleikinn 35 stigum undir.“

Stutt er á milli leikja hjá Þór núna og næst er hörkuleikur gegn Hetti á mánudaginn í bikarnum norðan heiða.

„Gaman að mæta Hetti aftur. Það verður fjör á Akureyri,“ sagði Hjalti að lokum.

Laufey Elíasdóttir, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í DHL-höllinni og tók myndirnar hér fyrir neðan.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira