Körfubolti

Sigurður: Mæli eindregið með því að spila í Grindavík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson mun spila með Grindavík í Domino's-deildinni í vetur en nýlega samdi miðherjinn við liðið til loka næstu leiktíðar.

Sigurður spilaði með Grindavík áður en hann hélt utan en hann hefur spilað með liðum í Svíþjóð og Grikklandi síðustu tvö árin. Hann útilokar ekki að fara aftur í atvinnumennsku síðar.

„Þetta var mjög skemmtilegt. Báðar deildir eru mjög góðar og þetta var góð og skemmtileg lífreynsla,“ sagði Sigurður sem hefur einnig spilað með Keflavík hér á landi, en hann er uppalinn á Ísafirði. Hann segir að fátt annað hafi komið til greina en að spila með Grindavík.

„Ég gaf ekki mikið færi á mér fyrir önnur lið. Mér líður vel í Grindavík og mæli eindregið með því að spila þar fyrir þá leikmenn sem vilja prófa það. Það er frábært að vera í Grindavík.“

Miðherjinn stóri var í æfingahópi Íslands fyrir EM í sumar en komst ekki í lokahópinn, ekki frekar en fyrir tveimur árum síðan. Hann segist eðlilega ósáttur við þá niðurstöðu.

„Að sjálfsögðu er ég það. En maður skliur vel að það þurfti að velja og það er erfitt val,“ sagði Sigurður en nánar verður rætt við hann í Fréttablaðinu á morgun.

 


Tengdar fréttir

Sigurður Gunnar kominn aftur í Grindavík

Grindvíkingar hafa fengið mikinn liðstyrk í karlakörfunni en félagið hefur náð samkomulagi við miðherjann Sigurður Gunnar Þorsteinsson. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×