Körfubolti

Martin samdi við Chalons-Reims

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Hermannsson er kominn í A-deildina.
Martin Hermannsson er kominn í A-deildina. vísir/bára dröfn

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, er búinn að semja við franska A-deildarliðið Chalons-Reims en þetta kemur fram á heimasíðu franska félagsins.

Martin kemur til Chalons-Reims frá Charleville í B-deildinni þar sem hann spilaði stórkostlega á sínu fyrsta ári í atvinnumennsku eftir háskólaboltann í Bandaríkjunum.

Vesturbæingurinn var besti leikmaður Charleville sem komst nokkuð óvænt í úrslitakeppnina en hann skoraði 17,2 stig að meðaltali í leik og var annar í kjörinu á besta leikmanni deildarinnar.

Chalons-Reims hafnaði í 16. sæti af 18 liðum á síðustu leiktíð og slapp naumlega við fall en þetta nýja lið, stofnað árið 2010 eftir sameiningu tveggja félaga, hefur aðsetur bæði í borgunum Reims og Chalons-en-Champagne.

Martin fylgir þjálfara sínum Cédric Heitz til Chalons-Reims en Frakkinn sem hefur náð svo fínum árangri með Charleville skrifaði undir hjá félaginu fyrr í sumar.

„Ég skrifaði bara undir um miðnætti í gærkvöldi. Þetta hefur verið í vinnslu en var klárað í gær. Hann [þjálfarinn] suðaði endalaust í mér eftir að hann tók við og vildi að ég kæmi með honum. Ég var búinn að skoða aðra valmögulega þar sem margt stórt og spennandi var í boði en ég held að þetta sé rett skref að elta hann,“ segir Martin í viðtali við mbl.is um vistaskiptin.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.