Viðskipti innlent

Ríkið fær 12 milljarða í sérstakri arðgreiðslu frá Landsbankanum

Hörður Ægisson skrifar
Íslenska ríkið á 98,2 prósent í Landsbankanum.
Íslenska ríkið á 98,2 prósent í Landsbankanum. VÍSIR/GVA
Bankaráð Landsbankans leggur til sérstaka arðgreiðslu til hluthafa, en íslenska ríkið fer með rúmlega 98 prósenta hlut í bankanum, að fjárhæð 11,82 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í tillögum fyrir aðalfund Landsbankans sem fer fram síðar í dag, miðvikudag, en gjalddagi sérstöku arðgreiðslunnar verður 20. september á þessu ári. Sú greiðsla kemur til viðbótar arðgreiðslu upp á 13 milljarða króna, sem áður hafði verið greint frá, vegna afkomu síðasta árs en bankinn hagnaðist um 16,6 milljarða króna eftir skatt á árinu 2016.

Samtals fær ríkissjóður því um 24,4 milljarða króna í arðgreiðslur frá Landsbankanum á þessu ári. Það er lítillega lægri upphæð en Landsbankinn greiddi í arð til ríkisins í fyrra en þá nam arðgreiðsla bankans, vegna afkomu af rekstri á árinu 2015, samtals 28,5 milljörðum króna. Hagnaður bankans á árinu 2015 nam 36,5 milljörðum króna eftir skatta.

Íslandsbanki, sem er jafnframt í eigu ríkisins, hefur áður tilkynnt að stjórn bankans muni leggja til arðgreiðslu á þessu ári að fjárhæð 10 milljarðar sem er um 50 prósent af hagnaði bankans í fyrra. Í desember 2016 tilkynnti bankinn um sérstaka arðgreiðslu að upphæð 27 milljarðar og námu heildararðgreiðslur bankans til íslenska ríkisins 37 milljörðum á árinu 2016.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×