Körfubolti

Formaður knd. Hauka: Ágætt að Ívar fari frá núna í smá tíma

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mál málanna í íslenska körfuboltaheiminum í dag er skíðaferð þjálfara Hauka, Ívars Ásgrímssonar. Hann mun ekki stýra sínu liði í gríðarlega mikilvægum leik gegn Snæfelli á föstudag vegna ferðarinnar.

Það eru engin fordæmi fyrir að þjálfari yfirgefi lið sitt á miðju tímabili og missi af leik þar sem hann er á skíðum. Haukar eru í harðri fallbaráttu og mega ekki tapa þessum leik.

Ákvörðunin um ferðina var tekin síðasta sumar og það með leyfi stjórnar körfuknattleiksdeildar Hauka.

„Okkur fannst þessi tímapunktur bara alveg ágætur er við tókum ákvörðun um þetta síðasta sumar. Núna er þetta samt auðvitað ekki gott,“ Kjartan Freyr Ásmundsson, formaður körfuknattleiksdeildar Hauka.

„Þetta er leikur sem skiptir okkur öllu máli. Okkur fannst þetta ekki vera góður tímapunktur heldur einn af skástu kostunum. Það er ekki eins og þessir menn séu alltaf í fríi. Við sættum okkur við þetta og ákváðum að hleypa honum í burtu í viku.

„Eftir á að hyggja þá er ég nú ekkert viss um að þetta sé svo slæmur tímapunktur því liðinu hefur gengið illa. Að vissu leyti er það sök þjálfarans enda er hann ábyrgur fyrir gengi liðsins ásamt okkur í stjórn og leikmönnum. Að vissu leyti held ég að það sé ágætt að hann fari frá núna í smá tíma. Kúpli sig út og nái vonandi hvíld. Leikmenn stíga vonandi upp og vinna þennan leik á móti Snæfelli. Ég er ekkert viss um að þetta eigi eftir að reynast okkur dýrt.“

Fyrst að Kjartan segir að það sé svona gott að liðið sé án Ívars núna af hverju gekk hann þá ekki alla leið og rak þjálfarann?

„Það er vegna þess að við stöndum á bak við Ívar. Hann er toppþjálfari og hefur staðið sig virkilega vel fyrir Hauka.“

Ívar fór mikinn í stöðufærslu á Facebook þar sem hann sagðist ekki skilja uppþotið út af þessari skíðaferð. Þar kemur einnig fram að hann hafi valið þessa dagsetningu sérstaklega fyrir ferðina. Væntanlega þar sem hann hafði ekki áhyggjur af leik gegn Snæfelli. Er hann ekki að gera lítið úr Hólmurum með því?

„Það eru held ég mistök að orða þetta svona. Ég er ekki viss um að hann meini þetta. Ég veit ekki hvert hann er að fara með þessu. Þetta er hans skoðun á stöðunni en þetta er alls ekki svoleiðis. Það þarf að fara í alla leiki til þess að vinna þá og það þarf að bera virðingu fyrir öllum andstæðingum.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.