Viðskipti innlent

Kjararáð ekki enn lækkað laun bankastjóra Íslandsbanka

Haraldur Guðmundsson skrifar
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, er enn með um 44 milljónir króna í árslaun.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, er enn með um 44 milljónir króna í árslaun. vísir/gva
Kjararáð hefur ekki enn úrskurðað um laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, rétt tæpu ári eftir að íslenska ríkið eignaðist fjármálafyrirtækið að fullu. Laun Birnu eru því óbreytt en þau hefðu með úrskurði ráðsins lækkað úr um 44 milljónum króna á ári í 25 milljónir. Útlit er fyrir að kjör hennar muni aldrei versna, niður í laun ákvörðuð af kjararáði vegna nýrrar lagabreytingar og þeirrar staðreyndar að Birna er með tólf mánaða uppsagnarfrest.

Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, staðfestir í skriflegu svari til Fréttablaðsins að kjararáð hafi ekki úrskurðað um laun Birnu. Ráðið hafi aftur á móti óskað eftir upplýsingum um störf og starfskjör bankastjórans og álit bankaráðsins. Þær upplýsingar hafi verið veittar og eins hafi Friðrik átt fund með meðlimum ráðsins í desember síðastliðnum.

„Stjórn bankans hefur þess vegna ekki gert neinar breytingar á kjörum bankastjórans frá því í desember árið 2015. Á síðasta aðalfundi var samþykkt að breyta starfskjarastefnu bankans og fella niður árangurstengdar greiðslur til starfsmanna frá síðustu áramótum og gildir sú ákvörðun um bankastjórann eins og aðra,“ segir í svari Friðriks.

Stjórnarformaðurinn bendir einnig á að Alþingi samþykkti þann 22. desember breytingar á lögum um kjararáð. Samkvæmt þeim munu ákvarðanir um laun bankastjóra ríkisbankanna tveggja, Íslandsbanka og Landsbankans, heyra undir bankaráð þeirra frá gildistöku laganna þann 1. júlí 2017.

Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, fundaði í desember með meðlimum kjararáðs eða tíu mánuðum eftir að íslenska ríkið eignaðist bankann.
„Verði núgildandi ráðningarsamningi breytt með úrskurði kjararáðs jafngildir það uppsögn á samningnum og tekur þá uppsagnarfrestur gildi. Af því má ljóst vera að starfskjör bankastjóra munu ekki breytast á næstunni,“ segir Friðrik.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er Birna ekki með styttri uppsagnarfrest en Steinþór Pálsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, samdi um á sínum tíma eða tólf mánuði. Fari svo að kjararáð ákveði að lækka laun hennar mun ákvörðunin því ekki hafa áhrif á starfskjör Birnu áður en lagabreytingin tekur gildi. Hún var með 43,7 milljónir króna í árslaun árið 2015 en ársreikningur Íslandsbanka fyrir árið í fyrra hefur ekki verið birtur. Það gerir um 3,6 milljónir króna á mánuði en Birna fékk þá að auki vilyrði fyrir 7,2 milljóna króna bónusgreiðslu frá bankanum.

Launakjör bankastjóra Landsbankans eru ákveðin af kjararáði og skal það gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum sem það ákveður. Rúmt ár er síðan ráðið ákvað að hækka laun Steinþórs, sem lét af störfum í lok nóvember, um tuttugu prósent. Heildarmánaðarlaun hans námu við starfslokin 2.089.094 krónum. Mismunurinn á árslaunum bankastjóranna tveggja nemur því 18,6 milljónum. Ríkið eignaðist Íslandsbanka að fullu í lok janúar 2016 og þangað til lögin um kjara­ráð taka gildi mun Birna hafa fengið um 28 milljónum króna meira í laun en ef ráðið hefði úrskurðað um kjör hennar frá og með yfirtökudeginum.

Birna sagði á uppgjörsfundi í Íslandsbanka í febrúar 2016 að hún myndi íhuga stöðu sína hjá bankanum ef kjör hennar myndu breytast. Lét hún þess þó getið að þrátt fyrir launalækkun yrði hún með töluvert há laun miðað við aðra starfsmenn bankans.

Ekki náðist í Jónas Þór Guðmundsson, formann kjararáðs, eða Óskar Bergsson varaformann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu



Uppfært kl. 11:45



Í tilefni af umfjöllun um laun bankastjóra Íslandsbanka í Fréttablaðinu í dag vill kjararáð koma eftirfarandi á framfæri: 

Með bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins dags. 24. júní 2016 var kjararáði tilkynnt um yfirtöku íslenska ríkisins á Íslandsbanka hf. og að Bankasýsla ríkisins færi með eignarhlut ríkisins í bankanum. Hófst þá málsmeðferðin hjá kjararáði þar sem leitað var eftir sjónarmiðum bankans, bankastjórans og fjármála- og fjármálaráðuneytisins. Vænta má úrskurðar í málinu á næstu vikum.

Fram er komið að bankastjórinn hefur 12 mánaða uppsagnarfrest samkvæmt ráðningarsamningi.

Ný lög um kjararáð taka gildi 1. júlí 2017, þar sem ákvörðunarvald um laun bankastjórans flyst aftur frá kjararáði til stjórnar bankans.

 





Fleiri fréttir

Sjá meira


×