Viðskipti innlent

Eigna­safn Seðla­bankans fékk tæpa þrjá milljarða

Haraldur Guðmundsson skrifar
Tryggvi Þór Herbertsson, var forstjóri Askar Capital og Steingrímur Wernersson og Karl Wernersson eigendur bankans.
Tryggvi Þór Herbertsson, var forstjóri Askar Capital og Steingrímur Wernersson og Karl Wernersson eigendur bankans.

Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) fékk rétt fyrir áramót tæpa þrjá milljarða króna upp í kröfur sínar vegna gjaldþrots Askar Capital hf.

ESÍ var langstærsti kröfuhafi félagsins en skiptum þess lauk 30. desember. Kröfur í búið námu 7,4 milljörðum og fengust rétt rúmir þrír milljarðar upp í þrotið eða 41 prósent.

Bú Askar Capital, sem var áður fjárfestingarbanki sem lagði áherslu á sérhæfðar fjárfestingar á nýmörkuðum, var tekið til gjaldþrotaskipta 25. september 2015. Höfuðstöðvar bank­ans voru við Suður­lands­braut í Reykja­vík en óskað var eftir slitameðferð á félaginu í júlí 2010.

Tryggvi Þór Her­berts­son var forstjóri bankans í eitt ár eða frá stofnun hans árið 2007. Ask­ar Capital var hluti af Milest­one-veldi Stein­gríms og Karls Wernerssona.


Tengdar fréttir

Tugmilljarða kröfur ríkis sagðar tapaðar

Ný skýrsla Ríkisendurskoðunar leiðir í ljós að töpuð lán Seðlabankans til banka og fjármálafyrirtækja ollu bankanum og ríkissjóði búsifjum að upphæð 267 milljarðar króna, en á móti standa óinnheimtar kröfur. Eftir hrun lagði ríkið nýju bönkunum, Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankanum, til 138 milljarða króna í hlutafé og að auki 57 milljarða króna í víkjandi lán.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×