Viðskipti innlent

Svanhildur Konráðsdóttir nýr forstjóri Hörpu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Svanhildur Konráðsdóttir er nýr forstjóri Hörpu.
Svanhildur Konráðsdóttir er nýr forstjóri Hörpu. VÍSIR/VALLI
Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, hefur verið ráðin forstjóri Hörpu og tekur hún við starfinu þann 1. maí næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hörpu en þar segir jafnframt að Svanhildur hafi yfir tuttugu ára farsæla reynslu af stjórnunarstörfum á vettvangi menningar, lista og ferðamála. Samkvæmt úrskurði kjararáðs verða laun Svanhildar 1,3 milljónir á mánuði.

„Síðastliðin ár hefur hún starfað sem sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, en sviðið ber ábyrgð á allri aðkomu borgarinnar að menningu, listum og ferðamálum, þ.m.t. rekstri menningarstofnana borgarinnar auk Höfuðborgarstofu.  Svanhildur leiddi m.a. stofnun Höfuðborgarstofu og síðar Menningar- og ferðamálasviðs, átti frumkvæði að stofnun Ráðstefnuborgarinnar Reykjavík (Meet in Reykjavík) og hefur jafnframt gegnt margvíslegum öðrum trúnaðarstörfum á vettvangi menningar og ferðamála.

 

Svanhildur hefur allt frá árinu 2004 komið að undirbúningi tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík, fyrst sem fulltrúi Reykjavíkurborgar í Austurhöfn ehf, og síðar í félögum sem sáu um byggingu og undirbúning rekstrar Hörpu.  Frá árinu 2012 hefur Svanhildur setið í stjórn Hörpu ohf.

 

Starf forstjóra Hörpu var auglýst laust til umsóknar 7. janúar sl. í kjölfar þess að Halldór Guðmundsson, sem gegnt hefur starfi forstjóra frá 2012, sagði upp störfum og tók að sér verkefni erlendis. Svanhildur sagði sig frá öllu því sem sneri að ráðningu nýs forstjóra áður en starfið varð auglýst.“

Alls sóttu 38 manns um starfið. Vísir óskaði eftir að fá lista yfir umsækjendur en því var hafnað. Samkvæmt lista fjármálaráðuneytisins er Harpa undanskilin upplýsingalögum.

Í tilkynningunni segir að það hafi verið „samdóma álit ráðgjafa og stjórnar að Svanhildur hefði yfirburða þekkingu og reynslu sem myndi nýtast vel í starfi forstjóra Hörpu og að hún uppfyllti best umsækjenda skilyrði auglýsingarinnar.“

„Hjartað hefur lengi slegið fyrir Hörpu og ég er svo lánsöm að hafa tengst verkefninu nánast frá upphafi,“ er haft eftir Svanhildi í tilkynningu.  

„Harpa hefur markað vatnaskil í menningarlífi og ferðaþjónustu á Íslandi og árangurinn til þessa er um margt afar góður enda býr húsið að einstaklega góðu starfsfólki og er heimili lykilstofnana í íslensku tónlistarlífi. Húsið er þjóðarinnar – ótrúlega fjölsótt og fullt af lífi, glæsilegt auðkennismerki Reykjavíkur og segull sem vekur athygli víða um heim. Ég þekki nokkuð vel þau viðfangsefni sem snerta Hörpu og þar með einnig þær áskoranir sem við hefur verið að etja í rekstrinum. Þeim þarf að mæta af ábyrgð og festu á næstu misserum svo tryggja megi húsinu traustan og heilbrigðan rekstrargrundvöll til framtíðar. Að fá að leiða reksturinn og starfið í Hörpu er því mikil áskorun og draumaverkefni fyrir hvern þann stjórnanda sem vill vinna að samfélagslega mikilvægu og rekstrarlega krefjandi verkefni. Ég hlakka því mikið til að fá að helga mig Hörpu og er þakklát fyrir að vera treyst fyrir verkefninu.“

Svanhildur tekur við starfinu af Halldóri Guðmundssyni sem verið hefur forstjóri Hörpu frá því hún opnaði árið 2011.


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.