Leikmaður umferðarinnar var Pétur Rúnar Birginsson úr Tindastól, en hann átti stórleik á fimmtudag og skóp sigur Stólanna á Keflavík á útivelli.
Pétur Rúnar skoraði 21 af 31 stigi Tindastóls í þriðja leikhluta og þar af komu 19 þeirra í röð.
Bakvörðurinn var með samtals 26 stig í leiknum, tók sjö fráköst og var með 13 stoðsendingar. Hann var með 36 framlagspunkta í leiknum og var besti maður vallarins.
Pétur Rúnar er að sjálfsögðu einnig í liði umferðarinnar. Með honum þar eru Austin Magnus Bracey, Ryan Taylor, Kári Jónsson og Ólafur Ólafsson. Þjálfari liðsins er Israel Martin.
Austin var með 34 stig í frábærum sigri Vals á Stjörnunni í framlengdum leik í gærkvöld. Ryan Taylor var stigahæstur ÍR-inga sem tóku Þór Þorlákshöfn og Kári Jónsson var besti maður vallarinns í sigri Hauka á Hetti.
Ólafur var að vanda drifkrafturinn í liði Grindavíkur sem bar sigurorð af Íslandsmeisturum KR í einvígi liðanna sem börðust um titilinn á síðasta tímabili.