Körfubolti

Chris Caird frá keppni næstu vikurnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Chris Caird er meiddur.
Chris Caird er meiddur. vísir/anton brink
Chris Caird, stórskytta Tindastóls í Domino´s-deild karla í körfubolta, verður frá keppni næstu vikurnar vegna meiðsla en hann missti af síðasta leik liðsins gegn Keflavík á heimavelli.

Caird er meiddur á hné og fór í aðgerð í Reykjavík í dag. „Við ákváðum að nýta tímann fyrst það er hlé vegna bikarsins og senda hann í aðgerð núna,“ segir Stefán Jónsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, við Vísi.

Sjá einnig:Chris Caird: „Ég elska íslenska lífstílinn“

Stefán segir að læknarnir reikna með því að Chris verði þrjár til fjórar vikur að jafna sig. Það má því fastlega reikna með að framherjinn öflugi missi af næstu þremur leikjum liðsins í febrúarmánuði á móti Snæfelli, Stjörnunni og Þór Þorlákshöfn.

Þessi 27 ára gamli Breti hefur spilað frábærlega með Tindastóli í vetur en hann kom frá FSu eftir síðustu leiktíð. Hann er að skora 19,5 stig að meðaltali í leik og taka 4,5 fráköst.

Caird er að skjóta 42,5 prósent fyrir utan þriggja stiga línuna en í síðasta leik fyrir meiðslin skoraði hann 39 stig á móti Njarðvík. Þar hitti hann úr sjö af fjórtán þriggja stiga skotum sínum.

Hann var kjörinn í úrvalslið fyrri umferðar Domino´s-deildarinnar fyrir frammistöðu sína fyrir áramót.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.