Viðskipti erlent

Samsung vill nota rafhlöður frá LG

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Innan skamms gætu símar Samsung verið búnir rafhlöðum frá LG.
Innan skamms gætu símar Samsung verið búnir rafhlöðum frá LG. Vísir/AFP
Samsung Electronics reynir nú að komast að samkomulagi við LG Chem, dótturfélag LG Electr­onics, um að fá að nota rafhlöður síðarnefnds fyrirtækis í snjallsíma sína. Frá þessu er greint í Chosun Ilbo, einu stærsta dagblaði Suður-Kóreu. Með þessu er Samsung sagt vilja koma í veg fyrir galla líkt og komu upp í farsímanum Galaxy Note 7 sem átti það til að springa vegna rafhlöðugalla.

Til þessa hafa rafhlöður í Note-símum Samsung komið frá bæði dótturfélaginu Samsung SDI og hinu kínverska Amperex Technology.

Chosun Ilbo vitnaði í heimildarmann sem sagði meira en níutíu prósent líkur á að fyrirtækin komist að samkomulagi og Samsung muni nota rafhlöður LG Chem frá og með miðju næsta ári.

Hvorki talsmenn Samsung né LG Chem vildu tjá sig um samkomulagið þegar Chosun Ilbo innti þá eftir svörum.

Þess er skemmst að minnast að Samsung innkallaði tvær og hálfa milljón Galaxy Note 7 síma snemma í september þessa árs. Var það gert vegna áðurnefnds rafhlöðugalla í rafhlöðu frá Samsung SDI.

Í október hætti Samsung öllum stuðningi við notendur Galaxy Note 7 en þá hafði fyrirtækið reynt að laga gallann með því að skipta út rafhlöðunni fyrir rafhlöðu frá Amperex Technology. Í henni kviknaði einnig.

LG Chem framleiðir nú rafhlöður fyrir LG Electronics og Apple. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×