Glamour

Sýna stríðsátök í íslenskum veruleika

Ritstjórn skrifar
Stilla úr auglýsingunni.
Hvar man ekki eftir dömubindaauglýsingunum frá níunda áratuginum þar sem hamingjusamar konur í hvítum sumarkjólum valhoppuðu brosmildar um engi við glaðlynda tónlist? Tímamóta auglýsing segja þeir sem muna eftir þessu sem þó féll misvel í kramið enda fáir tengja túr og öllu sem því fylgir við áhyggjulaust valhopp á friðsælum sumardegi. 

UN Women á Íslandi ákvað að endurgera þessa klassísku auglýsingu í samstarfi við auglýsingastofuna Döðlur og framleiðslufyrirtækið Skot fyrir herferðina #konumblæðir sem UN Women var að hrinda af stað. Eins og sjá má er það fyrirsætan Telma Þormarsdóttir sem er í aðalhlutverki í auglýsingunni sem er leikstýrð af Samúel Bjarka Péturssyni og Gunnari Páli Ólafssyni. 

„Um metnaðarfullt verk er að ræða sem sýnir stríðsátök í íslenskum veruleika,“ segir Inga Dóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi og bætir við „Mikilvægt er að beina sjónum að blæðingum kvenna sem oft hefur verið farið um eins og köttur í kringum heitan graut, í opinberri umræðu. En sem betur er umræðan að þróast og opnast til að mynda á samfélagsmiðlum og víða í samfélaginu. Við hjá UN Women fögnum þeirri umræðu og viljum taka umræðuna áfram og beina sjónum að því að konur fara á blæðingar í öllum aðstæðum, á flótta, í neyð og á hamfarasvæðum. Auk þess hefur heitir átaksins #konumblæðir víðari skírskotun, konum í þessum skelfilegu aðstæðum blæðir, tíðablóði, líkamlega og á sálinni.“

Einvalalið kom að gerð myndbandsins en gerð þess var umfangsmikil og var myndbandið tekið við Esjurætur. „Fjöldi fólks gaf vinnu sína og erum við öllum þeim sem gáfu sitt vinnuframlag við gerð myndbandsins gífurlega þakklát,“ segir Inga Dóra sem tekur fram að söfnunin fari vel af stað.

Skjáskot úr auglýsingunni
Rúmlega 600 þúsund konur og stelpur eru á vergangi í Mosul og kring. Þær sárvantar neyðaraðstoð og þeim fer fjölgandi með hverjum deginum. Konur í Mosul og nærliggjandi svæðum hafa verið innilokaðar og einangraðar síðastliðin tvö ár eftir að vígasveitir sem kenna sig við íslamskt ríki náðu borginni yfir á sitt vald. Þær hafa þurft að þola gróft ofbeldi, verið teknar sem gíslar og kynlífsþrælar og giftar hermönnum vígasveitanna en margar hafa horfið sporlaust.

„Neyðin er mikið og konur skortir helstu nauðsynjavörur. Því miður lítur út fyrir að straumur flóttafólks muni eingöngu aukast og því þarf töluvert fjármagn svo hægt sé að veita konum á svæðinu áframhaldandi neyðaraðstoð.“

Glamour hvetur alla til að senda sms-ið KONUR í 1900 (1490 kr.) og veita konu á flótta sæmdarsett sem inniheldur dömubindi, sápu og vasaljós. 






×