Viðskipti innlent

Atvinnuleysið minnst á Íslandi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Í riti OECD kemur fram að meiri atvinnuþátttaka er í löndum þar sem ungt fólk vinnur með námi.
Í riti OECD kemur fram að meiri atvinnuþátttaka er í löndum þar sem ungt fólk vinnur með námi. vísir/Anton Brink
Atvinnuleysi hjá bæði ungu fólki (15-29 ára) og hjá almenningi á aldrinum 15 til 65 ára er minnst á Íslandi meðal OECD-ríkja, miðað við tölur frá árinu 2015. Störfum hefur fjölgað eilítið almennt, en störfum fyrir ungt fólk hefur fækkað örlítið á milli áranna 2007 og 2015 á Íslandi. Þetta kemur fram í nýju riti Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, Society at a Glance, sem gefið var út í gær.

Í ritinu er sérstaklega varpað ljósi á stöðu ungs fólks innan OECD-ríkja. Fimmtán prósent ungs fólks á aldrinum 15 til 29 voru hvorki í vinnu, námi eða í starfsnámi (NEET) í OECD-löndunum árið 2015 en það eru 40 milljónir manna. Meira en tveir þriðju þeirra voru ekki að leita sér að vinnu en talið er að verg landsframleiðsla í OECD-löndum myndi aukast um 0,9 til 1,5 prósent ef þetta fólk væri í vinnu.

Ísland er með lægsta hlutfall ungs fólks sem flokkast undir NEET, en versta ástandið er í Tyrklandi. Atvinnuþátttaka ungra er mest í löndum þar sem ungt fólk starfar meðfram námi, en á Íslandi starfar meirihluti ungs fólks sem er í námi. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×