Fastir pennar

Ekki þeirra eign

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Við tölum um félagslegan hreyfanleika þegar menn færast upp um stétt í samfélaginu. Hver er félagslegur hreyfanleiki útlendinga á Íslandi?

Sjálfstæðisflokkkurinn hafði í eina tíð kjörorðið: Stétt með stétt. Flokkurinn notar þetta slagorð ekki lengur enda passar það varla. Stétt með stétt er sennilega mesta rangnefnið ef við tökum íslenskan sjávarútveg sem dæmi. Hinir neðst settu í samfélaginu, langsamlega oftast útlendingar sem tilbúnir eru að vinna á lágmarkslaunum, vinna lægstu störfin fyrir útgerðina í vinnslu sjávarfangsins. Þeir fá laun í krónum, viðkvæmum litlum gjaldmiðli sem næmur er fyrir sveiflum, meðan afurðin sem þeir vinna er seld fyrir evrur og dollara.

Sjávarútvegur er grunnatvinnuvegur á Íslandi og með svokölluðum „klösum“ stendur hann undir fjórðungi landsframleiðslunnar. Það væri ekki gáfulegt að gera á einni nóttu meiriháttar kerfisbreytingar á atvinnugrein sem skapar jafn mikil verðmæti og raun ber vitni. Það breytir því hins vegar ekki að aðgangshindranir í sjávarútvegi eru ein skýrasta birtingarmynd sérhagsmunagæslu og stéttaskiptingar í íslensku samfélagi. Auk aðgangshindrana greiða íslensk útgerðarfyrirtæki svo aðeins brot af hagnaði sínum fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni innan efnahagslögsögu íslenska ríkisins.

Veiðiheimildir eru ekki réttindi útgerðanna að eilífu hvað sem líður væntingum þeirra sjálfra. Löggjafinn hefur ítrekað slegið slíka varnagla. „Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum,“ segir í fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða. Lög um samningsveð takmarka beinar veðsetningar aflaheimilda. Réttindin hafa ekki sjálfstæðan tilverurétt þar sem þau þurfa að vera skráð á fiskiskip. Litið er á aflaheimildina og skipið sem eina heild. Þá eru aflaheimildir heldur ekki sjálfstætt andlag aðfarar og ekki er hægt að óska eftir nauðungarsölu á þeim einum og sér. Þetta eru ýmsar birtingarmyndir þeirrar staðreyndar að þetta eru ekki klassísk eignarréttindi.

Löggjafinn getur þannig hvenær sem er breytt lögum um stjórn fiskveiða og fyrirkomulagi úthlutunar aflaheimilda að gefnu tilliti til „réttmætra væntinga“ þeirra sem njóta þessara réttinda. Hvar liggur þá mælikvarði meðalhófsins þegar skerðing á nýtingarrétti þeirra sem njóta aflaheimildanna er annars vegar? Þetta er lögfræðilegt úrlausnarefni.

Útgerðarfyrirtækin munu væntanlega vísa í túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á „réttmætum væntingum“. En þetta er líka pólitískt viðfangsefni dagsins í ljósi þess að allir stjórnmálaflokkar sem mælast yfir fimm prósenta þröskuldinum, nema núverandi ríkisstjórnarflokkar, vilja ráðast í breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Oftast er rætt um einhvers konar útboðs- eða uppboðsleið með fyrningarívafi í því sambandi.

Það er hins vegar undirorpið vafa hvort þetta verði raunverulegt kosningamál. Hefur almenningur nægilega mikinn áhuga á þessu máli? Það snýst ekki bara um tæknileg atriði tengd sjávarútvegi og réttindum útgerðarfyrirtækja. Það snýst um félagslegt réttlæti. Verðmætasköpun og hagkvæmni og félagslegt réttlæti eru ekki andstæðir hagsmunir í samfélagi manna.

Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu.






×