Stephen Curry segir að það sé ekki markmið hjá Golden State Warriors að vinna 74 leiki á næsta tímabili í NBA-deildinni. Aðalmarkmiðið sé að vinna sjálfan meistaratitilinn.
Golden State setti met með því að vinna 73 leiki í deildarkeppninni á síðasta tímabili. Gamla metið var í eigu Chicago Bulls sem vann 72 leiki tímabilið 1995-96.
Þrátt fyrir þennan sögulega árangur tókst Curry og félögum ekki að landa meistaratitlinum, jafnvel þótt þeir kæmust í 3-1 gegn Cleveland Cavaliers í úrslitaeinvíginu.
„Það er í rauninni ekki markmið að vinna 74 leiki. Ef það gerist, þá gerist það bara. Öll okkar orka fer í að undirbúa atlöguna að titlinum,“ sagði Curry.
Sjá einnig: Setti þrist í andlitið á eiginmanninum | Myndband
Golden State bætti Kevin Durant við leikmannahópinn í sumar og þótt liðið hafi þurft að láta Andrew Bogut og Harrison Barnes fara virkar það ógnarsterkt.
„Við viljum auðvitað eiga frábæra deildarkeppni en það er ekki gott að einblína á að vinna 74 leiki. Þetta snýst um að vinna titilinn,“ sagði Curry sem hefur verið valinn verðmætasti leikmaður NBA-deildarinnar undanfarin tvö tímabil.

