Viðskipti innlent

Hold Fokus tilnefnt til tveggja verðlauna

Sæunn Gísladóttir skrifar
Tjarnargötu teymið.
Tjarnargötu teymið. Mynd/M. Flóvent
Auglýsingaherferðin Hold Fokus hefur nú verið tilnefnt til verðlauna í tveimur flokkum í hinum virtu “Digital Communication” verðlaunum.

Herferðin er unnin af íslenska framleiðslufyrirtækinu Tjarnargatan í samstarfi við norska fyrirtækið PR- operatørene og er hún gerð fyrir miðstöð umferðaröryggis í Noregi, Trygg Traffik og tryggingarfélagið Gjensidige.

„Hugmyndin á bakvið Höldum Fókus verkenið er að ríða ætíð á vaðið með notkun nýrra miðla og að þróa nýjar leiðir til að grípa athygli notenda á þeim miðlum sem það er vant að nota þá nú þegar" segir Einar Ben framkvæmdarstjóri Tjarnargötunar í tilkynningu.

Hold Fokus herferðin er einmitt tilnefnt í flokknum “Nýsköpun ársins” á “Digital Communication” verðlaununum og á þar í kappi við þýska flugrisann Lufthansa, Vodafone, bankarisann HSBC og fleiri fyrirtæki. Herferðin er einnig tilnefnd í flokknum “Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja” en í þeim flokki eru herferðir frá tyrkneska farsímarisanum Turkcell, Vodafone og fleiri fyrirtækjum einnig tilnefnd.

Tilkynnt verður um sigurvegara við hátíðlega athöfn í Berlín þann 29. september næstkomandi í hinu sögufræga Kino International kvikmyndahúsi.

Hold Fokus hefur áður verið tilnefnd á alþjóðlegum verðlaunum, þar á meðal til Digiday verðlaunanna í Bandaríkjunum, auk hinna evrópsku Sabre og European Excellence Awards. Þá hefur herferðin unnið til verðlauna í Noregi.

Herferðin bendir á hættur þess að nota farsíma undir stýri og í kjölfar hennar spratt upp mikil umræða í Noregi um ökumenn sem héldu ekki athygli vegna farsíma þar í landi og er talið að herferðin hafi fengið um 30 milljón birtingar og verið lofsungin af mörgum af helstu fjölmiðlum Noregs.

Hold Fokus verkefnið var upphaflega gert á Íslandi árið 2013 undir nafninu “Höldum Fókus” og vakti þá mikla athygli enda voru um 35.000 einstaklingar sem dreifðu herferðinni á samfélagsmiðlum. Nýlega kynnti Tjarnargatan nýjan lið í Höldum Fókus sem braut blað í notkun Snapchat samfélagsmiðilsins sem markaðstóls á Íslandi. Sjá hér: (https://www.youtube.com/watch?v=FSPV1Qs3f6s)

„Undanfarna 11 mánuði höfum við jafnframt lagt grunn að nýstárlegri blöndu tækni og myndefnis sem snýr að beinum samskiptum notenda við auglýsinguna. Við vonumst eftir að það verði burðarbitinn í Höldum Fókus 3, bæði hérlendis og erlendis" segir Einar Ben að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×