Lífið

Mikilvægt að styðja vel við flóttabörn

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Maja segir mikilvægt að styðja vel við flóttafjölskyldur í aðlögun þeirra, samfélagið þurfi að taka virkan þátt í henni og bera virðingu fyrir þeim hefðum sem fólk ákveður að halda í frá sínu landi.
Maja segir mikilvægt að styðja vel við flóttafjölskyldur í aðlögun þeirra, samfélagið þurfi að taka virkan þátt í henni og bera virðingu fyrir þeim hefðum sem fólk ákveður að halda í frá sínu landi. Fréttablaðið/Stefán
Staða flóttabarna er oft flókin þar sem þau hafa upplifað á eigin skinni eða orðið vitni að ofbeldi. Þau hafa þurft að skilja við fjölskyldur og heimili í heimalandinu. Oft er ekki möguleiki til að snúa aftur til heimalands sem er sá möguleiki sem innflytjendur í flestum tilfellum hafa völ á,“ segir Maja Loncar, MA-nemi í félagsráðgjöf og varaformaður W.O.M.E.N – samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi.

Maja skrifaði BA-ritgerð í félagsráðgjöf um félagslega aðlögun flóttabarna. Maja þekkir veruleika flóttabarna vel þar sem fjölskylda hennar kom hingað til lands sem kvótaflóttamenn árið 2000, þegar hún var 11 ára gömul. Hún er fædd í Króatíu en fjölskylda hennar þurfti að flýja frá landinu árið 1995.

„Það var stríð milli Serba og Króata þegar Króatar vildu fá sjálfstæði frá Júgóslavíu. Mamma mín er af serbneskum uppruna og ólst upp í Króatíu en faðir minn er frá Króatíu. Það flúðu flestir Serbar burt þegar stríðið braust út. Við fluttum til Svartfjallalands, það var mikið atvinnuleysi þar. Það er oft í boði fyrir fólk að fara til þriðja lands ef aðstæðurnar eru þannig að þú getur ekki snúið til heimalands og getur ekki verið í landinu þar sem þú ert. Við fengum boð um að fara eitthvert annað, það var árs ferli að bíða eftir svari um hvert við myndum fara.“

Fjölskyldan fór til Serbíu þar sem hún beið í ár eftir að vita hvert hún myndi fara. Á meðan fjölskyldan beið voru Maja og systkini hennar ekki í skóla. Hún þekkir því vel hvernig það er að aðlagast í nýju landi.

Vernd skiptir máli

„Börn eru viðkvæmur hópur og miklu máli skiptir að hagsmunir þeirra séu hafðir að leiðarljósi og þau njóti verndar. Málefni flóttabarna eru mér hugleikin, einkum vegna reynslu minnar af þessu ferli og innsæis í þær áskoranir sem flóttabörn fara í gegnum. Börn á flótta í dag eru að upplifa mun verri og hættulegri aðstæður en ég upplifði. Vernd þessara barna skiptir mjög miklu máli og réttur stuðningur og umhverfi.“

Maja segir marga ekki átta sig á hvað það getur reynt á börn að setjast að í nýju landi. Það fylgi því vissulega mikill léttir að vera kominn með samastað en á sama tíma sé margt að takast á við. Því sé afar mikilvægt að vel sé staðið að aðlögun þeirra. „Þetta skapar líka mikinn söknuð og missi sem fólk þarf að kljást við samhliða öðrum verkefnum sem taka við í nýju landi eins og að byrja í skóla, læra nýtt tungumál og skapa félagsleg tengsl við jafnaldra og aðra. Oft hafa þessi börn misst talsvert úr skóla og því getur það reynst þeim erfitt að byrja í námi eftir langt hlé þar sem aðferðir við nám eru kannski öðruvísi en þau eru vön. Það þarf að huga sérstaklega vel að þeim börnum sem koma til dæmis á unglingsárum þar sem því fylgja enn þá flóknari áskoranir sem tengjast aldurs- og þroskaskeiði unglinga. Á þessum aldri eru námskröfur líka meiri sem getur því leitt til erfiðleika í skóla og eykur hættu á brottfalli.“

Viðkvæm staða hælisleitenda

Hún segir börn sem koma hingað sem hælisleitendur í sérlega viðkvæmri stöðu. „Þeim fylgja enn flóknari áskoranir þar sem umsókn þeirra um hæli er til skoðunar, oft í lengri tíma. Á meðan eru þau án réttinda og líf þeirra er í bið. Óvissa með lagalega stöðu og framtíð getur valdið mikilli streitu í lífi einstaklinga sem sækjast eftir hæli, það getur leitt meðal annars til einangrunar og vanlíðunar. Það er mjög alvarlegt mál að börn þurfa að lifa við þessa óvissu í marga mánuði þar sem þau verða fyrir áhrifum, bæði beint og í gegn um foreldra sína.Hælisumsóknir í þeim málum sem varða börn þurfa að miðast betur við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það virðist ekki vera gert nægilega vel og horft oft fram hjá því að um börn er að ræða sem eiga lögbundinn rétt til verndar,“ segir Maja.

Togstreita milli foreldra og barna

Það eru ýmsar áskoranir sem koma upp þegar fólk sest að í nýju landi. Ákveðin togstreita getur líka myndast milli nýja samfélagsins og flóttafjölskyldunnar. „Samfélagið gerir kröfur til þeirra um að aðlagast á sama tíma og foreldrar vilja til dæmis halda í hefðir heimalandsins. Því skiptir miklu máli að umhverfi barnanna geri sér grein fyrir þessari togstreitu og þau séu studd á árangursríkan hátt í gegnum þetta ferli.“

Einnig skipti miklu máli að veita foreldrum góðan stuðning í að takast á við foreldrahlutverkið í nýjum aðstæðum. Það getur gerst að hlutverk barns og foreldris snúist við. „Foreldrar þurfa oft á stuðningi að halda í foreldrahlutverkinu í nýjum aðstæðum þar sem fjölskyldumynstrið breytist. Til dæmis eiga börn það til að aðlagast nýjum aðstæðum fyrr og öðlast betri menningarlega hæfni. Þau verða þannig oft eins konar túlkar milli foreldranna og nýja samfélagsins.

Þetta getur gert það að verkum að ágreiningur getur myndast milli foreldra og barna. Það verða oft árekstrar milli kynslóða. Þau þurfa oft að túlka ný gildi og hefðir og reyna að útskýra fyrir foreldrum hvernig hlutirnir virka í þessu nýja sam­félagi. Það er sagt í þessum fræðum að það skipti miklu máli að fjölskyldur komi sér saman um hvaða hefðum þær ætli að halda og fólkið í landinu verður svo að styðja við það.

Mikilvægt er að kröfur séu ekki gerðar til fólks um að gleyma sínum hefðum og gildum og að það sé ætlast til þess að það hafi enga þrá til að snúa aftur á heimaslóðir, þar sem fjölskyldur og heimili hafa orðið eftir. Ég vil tala um aðlögun sem ferli sem á sér stað á báða bóga. Fólk verður að fá frelsi til að ákveða hvaða gildi og hefðir það ætlar að halda í og hvað það ætlar að taka upp í nýja landinu. Við þurfum að bera virðingu fyrir því og styðja það ferli og hjálpa fjölskyldum að vera samstiga í því ferli. Þannig á árangursrík gagnkvæm aðlögun sér stað sem skapar gott fjölmenningarsamfélag.“

Verri andleg heilsa

Flóttabörn eru yfirleitt að koma úr mjög erfiðum aðstæðum þegar þau setjast að hér á landi. Eðlilega hefur það mikil áhrif. Rannsóknir sýna að það býr yfirleitt við verri andlega heilsu heldur en innfædd börn. Kvíðaraskanir, þunglyndi og áfallastreituraskanir eru algengari hjá flóttabörnum sem hafa búið við viðvarandi streitu og erfiðar aðstæður og orðið vitni að alvarlegum atburðum.

„Þó eru þessar áherslur einnig gagnrýndar í fræðunum um flóttabörn þar sem í ljós hefur komið að flóttabörn búa yfir styrk og aðlögunarhæfileikum og geta unnið úr þessum áföllum.

Ísland er mjög vel í stakk búið til að bjóða upp á þann möguleika fyrir flóttabörn og fjölskyldur þeirra að þau finni styrk í sinni reynslu og geti þannig nýtt reynslu sína sem lærdóm og byggt upp góða framtíð.Velferðarkerfið verður því að bjóða upp á stuðning og nærumhverfið í lífi fólks að vera styðjandi og fordómalaust. Hér á landi hefur meðvitund um þetta farið vaxandi og óréttlæti er fljótt að koma upp á yfirborðið sem almenningur hefur tækifæri til að hafa áhrif á og berjast gegn.“

Markviss þjónusta við flóttafólk stendur í ár eftir að það kemur til landsins. Maja segist telja að þjónustan ætti að vera lengur. „Eftir eitt til tvö ár tekur oft raunveruleikinn við. Fólk er svo ánægt fyrsta árið að vera komið í öruggar aðstæður og maður er svolítið eins og ferðamaður fyrsta árið. Erfiðleikar við að aðlagast gildum og menningu nýja landsins og raunveruleiki í nýju landi kemur oft ekki fram fyrr en eftir 1-2 ár frá komu. Þá geta einnig komið fram árekstrar milli kynslóða og söknuður eftir heimalandinu. Með tilliti til þess er erfiðasti tími í lífi flóttafjölskyldna því að taka við þegar dregið er sem mest úr þjónustu við þær. Ég held að það skipti miklu máli að bjóða upp á lengri þjónustu við flóttabörn og fjölskyldur þeirra þar sem verkefnin sem þau eru að kljást við eru flókin og þarfnast oft meiri stuðnings.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.