Viðskipti innlent

WOW air tvöfaldar sætaframboð sitt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skúli Mogensen er stofnandi og forstjóri WOW air.
Skúli Mogensen er stofnandi og forstjóri WOW air. vísir/vilhelm
WOW air mun á þessu ári bæta við sig tveimur nýjum vélum af gerðinni Airbus A321, árgerð 2016, og verða þær afhentar félaginu í maí og júní. Um er að ræða langtíma þurrleigu en með nýju vélunum tveimur mun flugþoti WOW telja ellefu vélar.

Sætafjöldi WOW á þessu ári mun rúmlega tvöfaldast frá því sem var í fyrra í 1,9 milljón sæta en árið 2015 var sætaframboð félagsins 837 þúsund. Allar ellefu flugvélarnar verða skráðar á flugrekstrarleyfi WOW air en til samanburðar þá voru aðeins tvær flugvélar skráðar á leyfi WOW air síðasta sumar.

Samhliða ört stækkandi flugflota WOW air hefur starfsfólki félagsins einnig fjölgað mjög hratt en í sumar munu um 600 manns vinna hjá WOW air en um 300 störfuðu hjá félaginu síðasta sumar.

„Ég er gríðarlega stoltur af ört stækkandi flugflota WOW air og okkar frábæra starfsfólki sem hefur lagt dag við nótt að gera þennan mikla vöxt að veruleika.  Það er magnað að við munum vera með ellefu nýjar og nýlegar Airbus flugvélar á okkar flugrekstrarleyfi aðeins tveim árum eftir að hafa fengið leyfið,“ er haft eftir Skúla Mogensen, stofnanda og eiganda WOW air, í tilkynningu frá fyrirtækinu.


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.