Körfubolti

Tapið á móti Hamri var kveðjuleikur Baldurs | Góður tími til að finna nýjan þjálfara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Baldur Ingi Jónasson.
Baldur Ingi Jónasson. Vísir/Anton

Baldur Ingi Jónasson hefur stýrt sínum síðasta leik með kvennaliði Stjörnunnar í Domino´s deild kvenna í körfubolta.

Baldur Ingi ákvað að stíga til hliðar en Stjörnukonur hafa aðeins unnið 3 af 18 deildarleikjum sínum á tímabilinu. Þetta var hans fyrsta tímabil með Garðabæjarliðið sem er nýliði í deildinni.

Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar staðfesti þetta í yfirlýsingu sem karfan.is fékk senda til sín í dag. Þar kemur einnig fram að Stjarnan er ekki enn búið að finna eftirmann hans.

Lokaleikur Baldurs Inga var tapleikur Stjörnunnar á heimavelli á móti Hamarsliðinu á miðvikudaginn en Hamar tryggði sér fimm stiga sigur með því að vinna lokaleikhlutann 29-16.

Stjarnan situr hjá í umferðinni sem fer fram á morgun og liðið spilar ekki aftur fyrr en 29. febrúar vegna bikarúrslitaleiksins og frí vegna landsleikja.

Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar hefur því nægan tíma til að finna nýjan þjálfara enda eru 24 dagar í næsta leik liðsins.

Stjarnan er þriðja félag deildarinnar til að skipta um þjálfara á tímabilinu en það hafa einnig Hamar og Keflavík gert.


Yfirlýsing frá körfuknattleiksdeild Stjörnunnar:

Baldur Ingi Jónasson hefur ákveðið að stíga til hliðar sem þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar.

Leit að eftirmanni Baldurs er hafin svo nýr þjálfari geti nýtt hið langa frí sem framundan er en stelpurnar eiga næst leik 29. febrúar gegn Haukum.

Stjórn kkd. Stjörnunnar þakkar Baldri kærlega fyrir samstarfið og óskar honum alls hins besta í framtíðinni.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.