Glamour

"The kitchen is in a very disappointing mess“

Tyrfingur Tyrfingsson skrifar
Tyrfingur Tyrfingsson
Tyrfingur Tyrfingsson Mynd/Rakel Tómas
Eftir að ferðalagi mínu um Búdapest lauk fékk ég sent skeyti frá henni Eszter sem leigði mér íbúðina sína á Pannónía utca 18:



The kitchen is in a very disappointing mess :(



Eftir töluverða umhugsun hef ég ákveðið að skrifa svar við kvörtunarbréfi Eszterar:



Sæl, Eszter



Es - Zter. Nafn sem þarf að hafa fyrir. Fyrst fellur þindin saman og svo blæs maður í gegnum tennurnar fram að vörum og út frussast með herkjum: Es-zter. Fred Astair.



Sem ég gekk upp hellulagðan gangstíg um þrönga götu í Kraká fann ég hvernig svitadropi á ennishúðinni rétt á milli augnabrúnanna snöggkólnaði í því sem reyndist vera fyrsta vindhviða haustsins. Ég veit ekki hvort þetta var hamingja, Eszter.



En það er mér nauðsynlegt að trúa því að ég hafi verið brosandi þegar ég þerraði svitann og varð litið til vinstri og inn um glugga á bíl þar sem skítugur karlmaður í lakkskóm fróaði typpinu á sér af móð, Eszter. Það var skömmin sem veitti honum orkuna, hann var hraður. Mér brá aðeins en fylltist svo sjúklegu þakklæti fórnarlambsins: Hann valdi mig! Svo hló ég að sjálfum mér, svona virkar náttúran, Eszter, ég hafði verið væminn yfir einhverju svitakófi og roki og gert mér upp hamingju og þá rekst ég á þennan kraftmikla litla fróara. Þetta var flókin stund en hún var góð og skýr og eins og alltaf þá verð ég hrærður og friðsæll þegar ókunnugur áreitir mig kynferðislega. Og þá kom haturspósturinn frá þér:



The Kitchen is in a very disappointing mess :(  



Ezster, ég þurfti á þér að halda, ekki alla vikuna en í smá stund rétt á meðan ég lagði töskuna frá mér, ég þurfti að finna vandræðaganginn í líkamanum yfir því hvernig ég tók yfir heimilið þitt eins og þegar maður hélt við kærasta vina sinna í gamla daga (eða ennþá). Við áttum að blandast eins og í leðju, þannig er vinátta, Eszter. En af því þú varst ekkert Eszter, nema fánýtt lyklabarn þá saknaði ég þín svo mikið að mig langaði til að lemja þig. Á AirBnb lofaðir þú bjartri íbúð en það var ekkert bjart þarna og það var ekkert dökkt þarna heldur molnuðu allir litirnir niður í duft og þú lést mig sofa í dufti, Eszter, þar til ég vaknaði við einmanaleg hróp í nágrannanum. Hver lætur aðra manneskju fá íbúðina sína? Heldurðu virkilega að eftir tvær heimsstyrjaldir sé ekkert líf í sementinu, viðkvæmni í lögnunum og hætta af rafmagninu? Þú kemur fram við íbúðina þína eins og hóru.

Ég veit alveg hvernig þú borðar, sama skálin, einhver ketill úr helvíti með vatnssulli sem þú þykist agalega ánægð með og kallar te. Allt upp úr skál. Ofan í skál.

Eina sem þú baðst mig um, Eszter, var að ég vaskaði upp bollana áður en ég færi. Og það var það eina sem ég gerði ekki. Getur þú ímyndað þér aumari uppreisn? Vildi ég væmni og uppgerða einlæga hrifningu á ruglinu í mér? Ekki beint. Ætlaði ég að vera eins og litli dónakallinn í bílnum? Nei. En mundu þetta: Dónakarlinn í bílnum er alltaf einn í bílnum. Eins og ég var einn hjá þér. Og þú varst ein hjá mér. Meira að segja hárið á þér var að reyna að hrynja af hausnum á þér eins hratt og það gat, svo rýr er nærvera þín, Eszter, en ég vildi samt vera með þér. Ég vildi að þú spyrðir mig hvernig ég hefði það og hvaða helvíti ég ætlaði að skoða í Búdapest og svo ætlaði ég að ræða það við þig hvernig Búdapest skiptist í Búda og Pest og hvað pest þýðir á íslensku. Af hverju þjóðin þín var svona kuldaleg við flóttafólkið og að þú talaðir mig ofan af því að fara og hjálpa því. Tæki fimm mínútur. Disappointing mess.

Þú ert sú stóra, Eszter, þú ert eigandi Pannónía utca 18, ég er fyrrverandi gestur Pannónía utca 18 svo hvað hefur þú að gera við mína samúð vegna kaffibolla í messi í eldhúsi? Hvað viltu frá mér? Það er eflaust jafn óljóst og hvað ég vil frá þér, ég er auðvitað að senda draugi aumustu morðhótun allra tíma.

En hvað ef ég kæmi bara aftur, Eszter?

Ég ætla að koma bara aftur, Eszter, við skulum prófa þetta aftur, ég hendi bollunum bara í ruslið og við drekkum upp úr plastmálum svo við þurfum ekkert að skammast okkar, Eszter.

Þinn ævilangt,

Tyrfingur






×