Viðskipti innlent

Tæplega tveggja milljarða fjárfesting

Sæunn Gísladóttir skrifar
Stærsta fjárfestingin á tímabilinu var fjárfesting GluMobile í QuizUp sem Þorsteinn B. Friðriksson stofnaði.
Stærsta fjárfestingin á tímabilinu var fjárfesting GluMobile í QuizUp sem Þorsteinn B. Friðriksson stofnaði. vísir/vilhelm
Á fyrsta fjórðungi ársins 2016 var fjárfest fyrir 13,4 milljónir dollara, eða 1,74 milljarða íslenskra króna, í sjö nýsköpunarfyrirtækjum. Þetta kemur fram í samantekt Norðurskauts.

Fjárfest var í rúmlega tvöfalt fleiri fyrirtækjum en á sama tímabili fyrir ári. Hins vegar var fjárfest fyrir mun lægri fjárhæð, sökum einnar stærðarfjárfestingar á tímabilinu í fyrra.

Hæsta fjárfestingin var 7,5 milljónir dollara, 922 milljóna króna, fjárfesting GluMobile í QuizUp. Þrjár fjárfestingar voru undir hálfri milljón dollara, jafnvirði 62 milljóna króna, tvær á bilinu 1,5-3 milljónir dollara, 185 til 370 milljónir króna, og ein yfir 370 milljónum króna.

Fjármagnið kom að 57 prósenta hluta frá útlöndum en 43 prósent frá Íslandi. Fjárfesting GluMobile nemur hins vegar stórum hluta erlenda fjármagnsins.

Eitt fyrirtæki var selt á tímabilinu. Sænska fyrirtækið Enzymatica keypti íslenska fyrirtækið Zymetech fyrir um sjötíu milljónir sænskra króna, eða rúman milljarð íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×