Viðskipti innlent

Guðmundur nýr framkvæmdastjóri AFS á Íslandi

Atli Ísleifsson skrifar
Guðmundur hefur starfað á alþjóðasviði 66°Norður frá árinu 2011.
Guðmundur hefur starfað á alþjóðasviði 66°Norður frá árinu 2011. Mynd/AFS
Guðmundur Gunnarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri AFS á Íslandi.

Guðmundur hefur starfað á alþjóðasviði 66°Norður frá árinu 2011, en þar áður sem frétta- og dagskrárgerðarmaður hjá RÚV. Hann er með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík og B.A. próf í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri.

Jóna Fanney Friðriksdóttir, sem hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra AFS síðastliðin fjögur ár, sagði starfi sínu lausu nýverið en mun starfa áfram fyrir samtökin samhliða nýjum framkvæmdastjóra til áramóta.

Guðmundur segir virkilega spennandi að ganga til liðs við AFS á þessum tímapunkti. „Fræðslusamtök, sem hafa það að leiðarljósi að auka skilning milli þjóða og brúa bilið milli fólks af ólíkum uppruna, gegna lykilhlutverk í samfélaginu. Ekki síst um þessar mundir. Ég hlakka til að vinna með starfsfólki AFS, fráfarandi framkvæmdastjóra og öflugum hópi sjálfboðaliða að áframhaldandi uppgangi AFS á Íslandi,“ segir Guðmundur.

Í tilkynningu frá AFS segir að stjórn AFS á Íslandi bjóði Guðmund velkominn til starfa en vilji um leið þakka Jónu Fanneyju Friðriksdóttur frábær störf í þágu samtakanna undanfarin ár.

AFS eru alþjóðleg fræðslusamtök sem starfa í yfir fimmtíu löndum í öllum heimsálfum, en aðalviðfangsefni samtakanna hér á landi er nemendaskipti unglinga á aldrinum 15 til 18 ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×