Viðskipti innlent

Þurfum að setja upp kynjagleraugun

Sæunn Gísladóttir skrifar
Dr. Diane Elson hefur rannsakað kynjaðar fjárhags- og starfsáætlanir í fjölda ára.
Dr. Diane Elson hefur rannsakað kynjaðar fjárhags- og starfsáætlanir í fjölda ára. Fréttablaðið/GVA
Með kynjaðri fjárhagsáætlun er gengið úr skugga um að almenningsfjárhag sé betur varið. Þetta fullyrti Dr. Diane Elson á málþingi Reykjavíkurborgar um kynjaða fjárhags- og starfsáætlun á föstudaginn. Reykjavíkurborg hóf innleiðingu á kynjaðri fjárhags- og starfsáætlun árið 2011, og er Elson einn fremsti sérfræðingurinn á þessu sviði.

Kynjuð fjárhagsáætlun (e. gend­er budgeting) felur það í sér að setja upp kynjagleraugun og rýna í hvernig borg eða ríki verja almenningsfjármunum. Þá er litið á það hvort ríkið verji og safni fé á þann hátt að draga úr, eða auka jafnrétti kynjanna, eða hvort kynjajafnrétti haldist óbreytt. Kynjaðar fjárhagsáætlanir voru fyrst kynntar í lok síðustu aldar og hefur Elson rannsakað þær í fjölmörgum löndum. Hún hefur sérstaklega skoðað niður­skurð með kynjagleraugunum. Í Basel í Sviss leiddi niðurskurður á daggæslu barna til dæmis til þess að konur, frekar en karlar, þurftu að verja meiri tíma í ólaunaðri vinnu við að gæta barnanna sinna. „Mikil­vægt er að líta ekki einungis á kostnaðinn sem ríkið eða borgin geti sparað sér í niður­skurði, heldur einnig á hver ytri áhrifin eru,“ segir Elson. Ef konur þurfa þá að verja meiri tíma heima og minni tíma í vinnu geta þær lækkað í launum og skatttekjur lækka þá í kjölfarið.

Í samtali við Markaðinn segist Elson telja að þörf sé á kynjuðum fjárhagsáætlunum á Norður­löndunum þrátt fyrir að löndin séu langt komin á sviði jafnréttismála. Hún bendir á ofbeldi gegn konum og meiri ábyrgð kvenna á heimilinu sem dæmi um það að enn þá sé verk fyrir höndum. „Oft er sagt um Norðurlöndin að konur ráða opinbera geiranum, en karlar einkageiranum,“ segir Elson.

Elson segist hafa upplifað vaxandi áhuga á kynjuðum fjárhagsáætlunum undanfarin ár, hins vegar skipti lykilmáli hversu alvarlega stjórnvöld kjósa að beita aðferðinni. Spurð hvort mikilvægt sé ekki einnig að horfa á fjárhagsáætlanir með hliðsjón af öðrum minnihlutahópum segir Elson að það skipti vissulega máli. Hins vegar séu kynjagleraugun þau einu sem sýna vandamálið með ólaunaðri vinnu heima fyrir og einnig hver innan heimilisins hljóti þjónustu og bætur. Aðspurð segir Elson vinstristjórnir ekki endilega hafa meiri áhuga á kynjuðum fjárhagsáætlunum, hins vegar framfylgi þær þeim öðruvísi en hægristjórnir. Hún telur að fram að þessu hafi mikill árangur áunnist á sviðinu á Íslandi. saeunn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×