Viðskipti innlent

Taka upp leikjavædda heilsueflingu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá undirritun Sidekick og RB.
Frá undirritun Sidekick og RB.
Reiknistofa bankanna er fyrsta fyrirtækið til að taka upp íslenska leikjavædda heilsueflingu. Heilsulausnin er hönnuð af Sidekick Health fyrir fyrirtæki og til að efla heilsu og vellíðan starfsfólks. Í tilkynningu frá fyrirtækjunum segir að langvinnir lífstílstengdir sjúkdómar, eins og offita, sykursýki 2 og hjartasjúkdómar, valdi 86 prósentum af dauðsföllum í Evrópu.

Hlutfallið er 68 prósent á heimsvísu. Þá má rekja gífurlega kostnað hins opinbera til langvinnra lífstílstengdra sjúkdóma.

Starfsmenn RB munu fá aðgang að appinu Sidekick. Þar má finna leiki og keppnir á milli starfsmanna. Hægt er að nota appið til heilsueflingar einstaklinga og skipta starfsfólki niður í lið innan fyrirtækis og byggja upp stemningu.

„Við leggjum mikla áherslu á að vera stöðugt að efla heilsu starfsfólks RB með því að bjóða upp á ýmis konar fræðslu, þjálfun og þjónustu,“ segir Herdís Pála Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðsmála og samskipta hjá RB.

„Við bjóðum meðal annars upp á heilsumælingar, bólusetningar, jakkafatajóga, nudd og ýmislegt annað. Við lítum á þetta sem hluta af því að skapa eftirsóknarverðan vinnustað, sem og okkar samfélagslegu ábyrgð. Við erum afar spennt yfir samstarfinu við Sidekick og hlökkum mikið til að fara af stað að nota appið, sérstaklega liðakeppnina. Við bindum miklar vonir við notkun appsins og gaman verður að sjá árangursmælingar þegar við höfum notað það í einhvern tíma til dæmis hvort heilsumælingar komi betur út eða að veikindadögum hafi fækkað. Fyrir utan ávinninginn þá teljum við þetta mjög ferska nálgun og hafa mikið skemmtanagildi fyrir starfsfólk.“

„Ég starfaði sem læknir, meðal annars við að meðhöndla lífstílstengda sjúkdóma en um 70-80% af öllum heilbrigðiskostnaði í Evrópu má rekja til langvinnra lífstílstengdra sjúkdóma og eru því hagsmunirnir miklir,“ segir Tryggvi Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Sidekick.

„Ég ákvað að venda kvæði mínu í kross og reyna að fyrirbyggja lífstílstengdu sjúkdómana og tók meistaragráðu í lýðheilsufræðum frá Harvard. Í kjölfarið stofnaði ég Sidekick og er það ótrúlega gaman að sjá 3ja ára þróunarvinnu fara í loftið með þessu samstarfi við RB. Við höfum fulla trú á því að við séum með lausn í höndunum sem á eftir að efla lýðheilsu fólks til lengri tíma.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×