Viðskipti innlent

Icelandair greiðir 2,5 milljarða í arð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Rekstur Icelandair hefur gengið vel að undanförnu.
Rekstur Icelandair hefur gengið vel að undanförnu. vísir/anton
Stjórn Icelandair Group leggur til að félagið greiði hluthöfum samtals 2,5 milljarða í arð til hluthafa á árinu 2015. Það samsvarar 0,5 krónum á hvern hlut.

Hagnaður Icelandair nam 66,5 milljónum dala eftir skatta á síðasta ári, eða 8,7 milljörðum króna. Hagnaðurinn jókst um 10 milljónir dala frá fyrra ári. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

EBITDA á síðasta ári nam 154,3 milljónum dollara, eða 20 milljörðum króna, samanborið við 143,7 milljónir dollara árið 2013.

Rekstrartekjur jukust um 9% á milli ára. EBITDA á fjórða ársfjórðungi var neikvæð um 1,5 milljón USD og lækkaði um 8,3 milljónir USD á milli ára.

Eiginfjárhlutfall 43% í árslok 2014 samanborið við 42% í árslok 2013.

„Afkoma ársins 2014 er betri en áætlanir stjórnenda gerðu ráð fyrir í upphafi árs og EBITDA ársins er við efri mörk síðustu afkomuspár félagsins,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, í afkomutilkynningu. Hann segir að margir samverkandi þættir stuðli að góðu uppgjöri.  

„Þar má nefna lækkandi eldsneytisverð, aukna eftirspurn á Norður-Atlantshafsmarkaðinum sem við höfum mætt með auknu framboði ásamt góðri afkomu í leiguflugi. Veiking evrunnar gagnvart bandaríkjadal hafði neikvæð áhrif á rekstur félagsins auk þess sem kostnaður við skoðanir fraktvéla var mun hærri en gert hafði verið ráð fyrir,“ segir Björgólfur Jóhannsson 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×