Fastir pennar

Meiri bullukollarnir

Magnús Guðmundsson skrifar
Flest höfum við gaman af því að ferðast og sjá meira af heiminum en við gerum í okkar daglega lífi. Stundum förum við um víðáttu og fegurð íslenskrar náttúru en svo er líka gaman að koma út í hinn stóra heim. Flatmaga á sólarströnd, skella sér í verslunarleiðangur, skoða náttúru, mannlíf og menningu sem er engu lík. Af nógu er að taka því heimurinn er stór.

Fátt vitum við svo meira í frásögur færandi en þegar við finnum eitthvað úti í þessum stóra heimi sem er ósnert, upprunalegt og staðbundið, eða orginal og kúl eins og sagt er á góðri íslensku. Og þetta er einmitt það sem hefur heillað þá útlendinga sem heimsækja Ísland. Víðátta ósnertrar náttúru, óbeisluð orka íslenskra djammara, rokkið í Reykjavík, listin, lífið og mannlífið.

Þetta er ástæðan fyrir því að erlendum ferðamönnum á Íslandi fjölgar hraðar en kanínustofninum í Öskjuhlíð og að ýmsu leyti er það hið besta mál. Allir þessir ferðamenn skila miklum tekjum í þjóðarbúið og það alvöru útlenskum peningum sem gleðja skarfana í Seðlabankanum mikið. Gott mál og allir glaðir. Eða hvað?

Eins og Íslendinga er von og vísa ætla nú margir að verða ríkir á þessari gósentíð útlendra peninga og það alveg bremsulaust. Og miðborg Reykjavíkur, sem hefur löngum verið hjarta lista- og menningarlífs landsmanna, virðist ætla að verða illa úti. Keyrð í kaf af tuskulundum, lopafatnaði og gistirýmum í hverju einasta skúmaskoti sem losnar. Mikið af þessu húsnæði losnar reyndar af þeim sökum að íbúarnir, fólkið sem gerir miðborgina byggilega og heillandi, flæmist burt undan drunum langferðabíla, drynjandi ferðatöskum og að ógleymdu hækkandi fasteigna- og húsaleiguverði.

Nú eru til að mynda uppi áætlanir um að skemmtistaðir við Tryggvagötu víki fyrir lopalundabúðum og þetta eru staðir sem hafa gert sér far um að vera virkir í tónlistarlífinu. Þangað er hægt að skreppa á mánudagsdjass og þar hefur Iceland Airwaves verið með fjölda tónleika svo eitthvað sé nefnt. Sem sagt tónlistarviðburðir sem útlendingarnir koma til að sjá og heyra eiga að fara eitthvert annað svo það sé hægt að setja upp fleiri minjagripaverslanir.

Það má vera að þessi breyting sé ekki besta dæmið. Að húsin verði fallegri og betri og útkoman hagstæðari fyrir þjóðarbú morgundagsins. En til lengri tíma litið er öll þessi þróun innan miðborgarinnar óheillavænleg og það vita allir Íslendingar sem hafa einhvern tímann ferðast út fyrir landsteinana. Því vonandi eru Íslendingar ekki að ferðast langar vegalengdir til þess eins að skella sér í minjagripaverslanir eða að láta fóðra sig á tilbúinni sölumenningu.

Þetta er því þróun sem borgaryfirvöld verða að hafa eitthvert taumhald á og það er auðvitað vel gerlegt. Í útlöndum er t.d. að finna fjölmörg dæmi um það hvernig er hægt að koma takmörkunum á fjölda gistirýma, bílaumferð, verslunarstarfsemi og annað sem hefur áhrif á götumyndina og mannlífið sem þar þrífst. Vissulega hefur talsvert verið talað um að eitthvað gæti mögulega þurft að gera. Ráðstefnur haldnar og útlenskir sérfræðingar sagt okkur að við verðum að grípa í taumana. En við virðumst ætla að láta þar við sitja enda vita þessir útlendingar ekkert um hvað þeir eru að tala – ekki frekar en þessir sem bentu okkur á að íslensku bankarnir væru orðnir of stórir fyrir okkar litla hagkerfi. Það voru nú meiri bullukollarnir.






×