Bakþankar

Gummi Vettlingur og Gummi Lúffa

Birta Björnsdóttir skrifar
Foreldrum er treyst fyrir velferð barna sinna og við bindum vonir við að aðrir samfélagsþegnar grípi inn í sé grunur um að foreldrar uppfylli ekki þessa skyldu sína.

Nú vill yfirgnæfandi hluti foreldra börnunum sínum allt það besta og er nafngift þar ekki undanskilin. Auðvitað höfum við ólíkar skoðanir á því hvaða nöfn eru prýði fyrir þann sem það ber, en fáir ef nokkrir myndu nota nafngjöf barnsins síns í útrás fyrir vafasamt skopskyn. Við erum til dæmis flest af þeim aldri þar sem kúkur, piss og rass þykir það fyndnasta í öllum heiminum þegar við fáum að gefa öðrum einstaklingi nafn.

Fimm ára sonur minn, sem sannarlega er staddur á þessu góða þroskaskeiði húmorsins, vill reyndar gjarnan að óskírður bróðir hans verði nefndur Gummi Lúffa. Af hverju veit ég ekki. Sjálfur vill hann gjarnan vera kallaður Gummi Vettlingur. Hann heitir ekki einu sinni Guðmundur.

Börnumeru gefin ýmis nöfn í dag, með samþykki Mannanafnanefndar. Reglulega berast fregnir af mannanöfnum sem fá mann til að hvá við og jafnvel hneykslast. Viðkvæðið að barn með nýsamþykkt ónefni geti aldrei orðið forseti lýðveldisins heyrist gjarnan. Auk þess er látið að því liggja að sum nöfn bjóði hættunni á einelti heim. Eins og nöfn fólks hafi aldrei fyrr verið notuð í þeim tilgangi að stríða.

Gjarnanmá draga nýlega umræðu um bólusetningar barna hér að borðinu. Þar er frelsi foreldra til ákvarðanatöku, sem ekki einungis getur haft slæm áhrif á afkvæmi þeirra heldur fjölda marga aðra, sett ofar öllu. Mér er sem sagt í sjálfsvald sett hvort ég læt bólusetja barnið mitt nýfædda fyrir hvers kyns sjúkdómum en vilji ég gefa því nafn sem ég tel að muni verða honum til sóma þarf ég til þess sérstakt leyfi, eigi nafnið sér ekki hefð í íslenskri tungu. Það hlýtur að teljast undarlegt.

Eigum við ekki að treysta hvert öðru til að velja framtíðarþegnum landsins nöfn? Og hver veit nema embætti forseta Íslands verði einn daginn mannað einstaklingi að nafni Gummi Lúffa.






×