Viðskipti innlent

Fjórða hver króna í hagnað

ingvar haraldsson skrifar
BBA Legal jók hagnað sinn mest milli ára.
BBA Legal jók hagnað sinn mest milli ára. fréttablaðið
Ríflega fjórða hver króna sem fjórar af stærstu lögmannsstofum landsins þénuðu í fyrra skilaði sér í hagnað. Rekstrartekjur lögmannsstofanna fjögurra, Lex, Logos, Markarinnar og BBA Legal, námu 4,6 milljörðum en hagnaður ríflega 1,2 milljörðum króna.

Sé einnig horft til afkomu Landslaga og Réttar sem ekki gefa upp veltutölur í ársreikningi, högnuðust lögmannsstofurnar sex um 1.483 milljónir króna á síðasta ári en 1.513 milljónir króna árið 2013 svo hagnaður dróst saman um 31 milljón króna milli ára.

Nær allur hagnaður lögmannsstofanna árið 2013 var greiddur í arð á síðasta ári en alls námu arðgreiðslur til eigenda lögmannsstofanna sex 1.407 milljónum króna í fyrra.

Þegar kemur að veltu er Logos langstærsta lögmannsstofan, en fyrir­tækið velti 2,2 milljörðum króna árið 2014 sem er samdráttur um 221 milljón króna milli ára. Hagnaður Logos dróst einnig saman um 102 milljónir króna, en hagnaður fyrirtækisins var 616 milljónir króna í fyrra en 718 milljónir króna í hittifyrra.

Næststærst er Lex sem er hálfdrættingur á við Logos þegar kemur að veltu og amlóði þegar kemur að hagnaði. Lögmannsstofan velti 1,2 milljörðum króna í fyrra en hagnaður hennar var 206 milljónir króna sem er smávægileg aukning milli ára.

BBA Legal er hástökkvari ársins þegar kemur að hagnaði sem nær tvöfaldaðist milli ára. Hagnaður BBA Legal nam 250 milljónum króna í fyrra en 134 milljónum árið 2013. Þá jukust rekstrartekjur fyrirtækisins um 160 milljónir og voru 685 milljónir.

Hagnaður og velta Markar dróst saman um 60 milljónir króna í fyrra, en fyrirtækið velti 500 milljónum króna og hagnaðist um 168 milljónir króna.

Landslög högnuðust um 175 milljónir króna í fyrra sem er 25 milljónum króna meira en árið 2013. Þá hagnaðist lögmannsstofan Réttur um 59 milljónir króna í fyrra sem er 8 milljónum minna en árið 2013.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×