Viðskipti innlent

Kvika selur 90% hlutafjár í Íslenskum verðbréfum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sigurður Atli Jónsson, forstjóri bankans.
Sigurður Atli Jónsson, forstjóri bankans. Vísir/Anton
Íslensk eignastýring ehf. dótturfélag Kviku hefur selt nær allan hlut félagsins í Íslenskum verðbréfum. Kaupandi er dreifður hópur fjárfesta auk lykilstarfsmanna Íslenskra verðbréfa. Kaupverðið er trúnaðarmál, segir í tilkynningu frá Kviku. Íslensk eignastýring heldur 9,99% hlut í fyrirtækinu með sölurétti sem það hyggst nýta í náinni framtíð. Engar breytingar verða á starfsemi Kviku vegna sölunnar, enda hafði engin samþætting átt sér stað á milli Kviku og Íslenskra verðbréfa.

Fram kemur í tilkynningu frá ÍV að öflugur hópur fjárfesta auk lykilstarfsmanna hafi gengið frá kaupum á yfir 90% hlutafjár í Íslenskum verðbréfum hf. Hluthafar í félaginu eru rúmlega 20 og fer enginn hluthafi með yfir 10% eignarhlut. Meðal hluthafa eru Ursus Maritimus Investors sem er félag í eigu Sigurðar Arngrímssonar, Kaldbakur ehf., Lífeyrissjóður starfsmanna Akureyrarbæjar, KEA svf., Stapi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, Festa lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Kjálkanes ehf. og Salvus ehf. í eigu Sigþórs Jónssonar framkvæmdastjóra ÍV.

Stefna nýrra eigenda er að styðja félagið til áframhaldandi vaxtar og er það trú þeirra að Íslensk verðbréf muni eflast á íslenskum fjármálamarkaði á næstu árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×