Viðskipti innlent

Ekkert fékkst upp í kröfur við gjaldþrotaskipti í félagi Kristins

ingvar haraldsson skrifar
Kristinn Björnsson, fyrrum forstjóri Skeljungs.
Kristinn Björnsson, fyrrum forstjóri Skeljungs.
Ekkert fékkst upp í kröfur við gjaldþrot MCT ehf., félags í eigu Kristins Björnssonar, fyrrum forstjóra Skeljungs. Félagið hét áður Mercatura ehf. en lýstar kröfur námu 29 milljónum króna.

Félagið var lýst gjaldþrota í júlí á þessu ári. Samkvæmt síðasta ársreikningi sem félagið skilaði fyrir árið 2013 var félagið eignalaust en skuldir námu tæplega hálfum milljarði króna.

Fjallað var um félagið í Rannsóknarskýrslu Alþingis um fall bankanna þar sem Kristinn er eiginmaður Sólveigar Pétursdóttur, fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins, ráðherra og forseta Alþingis. Alls námu lánveitingar til Sólveigar og tengdra aðila 3,6 milljörðum króna.

„Öll veruleg lán sem tengjast Sólveigu Pétursdóttur á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Kristins Björnssonar. Stærstu lánin voru til félags Kristins, Mercatura ehf., og af þeim voru hæstu lánin í gegnum framvirka samninga. Helstu verðbréf sem lágu að baki þeim samningum voru hlutabréf FL Group hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. og skuldabréf Icebank. Í stærstu lánum og framvirkum samningum Kristins og Mercatura var Glitnir mótaðili. Þá var félag í helmingseigu Kristins, Geri ehf., með 200–300 milljóna króna lán hjá Landsbanka á tímabilinu,“ segir í Rannsóknarskýrslunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×