Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur sett lögbann á Vodafone vegna upptöku og ólínulegar miðlunar fyrirtækisins á sjónvarpsefni SkjásEins. Talið er að Vodafone brjóti gegn dreifingarsamningi við Símann og miðli sjónvarpsefni SkjásEins með óleyfilegum hætti til viðskiptavina sinna, að því er fram kemur í tilkynningu frá Símanum.
Þar segir jafnframt að ágreiningur félaganna vegna breyttrar þjónustu SkjásEins hafi verið til skoðunar hjá stjórnvöldum, það er Samkeppniseftirlitinu, Póst- og fjarskiptastofnun og fjölmiðlanefnd.
Innan eftirlitsstofnana hafi meðal annars verið tekist á um hvort Tímavél Vodafone og Frelsi heyrðu til línulegrar eða ólínulegrar dagskrár. Síminn haldi því fram að þjónustan sé ólínuleg og undir það taki fjölmiðlanefnd.
