Viðskipti innlent

Tvíburar vilja reisa verksmiðju til að framleiða vatn í Kópavogi

Ingvar Haraldsson skrifar
Acqua Nordica hefur sótt um lóð undir vatnsverksmiðju við Turna- og Tónahvarf í Vatnsendahverfi í Kópavogi.
Acqua Nordica hefur sótt um lóð undir vatnsverksmiðju við Turna- og Tónahvarf í Vatnsendahverfi í Kópavogi. vísir/stefán
Félagið Acqua Nordica ehf. hefur sótt um lóð fyrir 2.000-2.500 fermetra vatnsverksmiðju við Tónahvarf og Turnahvarf við Vatnsenda í Kópavogi. Á fundi bæjarráðs Kópavogs þann 17. desember var erindinu vísar til sviðsstjóra umhverfissviðs Kópavogsbæjar til umsagnar og honum falið að afla upplýsinga um hvaðan vatn í fyrirhugaða verksmiðju eigi að koma.

„Bærinn er með vatn, nóg af vatni,“ segir Arnar Loftsson, stjórnarformaður Acqua Nordica, um hvaðan vatnið í verksmiðjuna eigi að koma og bætir við að Kópavogsbær sé til að mynda með borholur við Vatnsendakrika. Bygging verksmiðjunnar verði fjármögnuð erlendis frá. Að öðru leyti sé ótímabært að tjá sig um málið. Það muni skýrast betur eftir að endanlegt svar frá Kópavogsbæ berist. Acqua Nordica Ltd, félag stofnað fyrr á árinu á Bretlandi, og Arnar eru skráðir stofenendur Acqua Nordica ehf.

Á annari heimasíðu bræðranna fullyrða þeir að fyrirtækinu standi heimsþekktir bruggarar og íslenskir vatnsframleiðendur.
Með Arnari í stjórn félagsins eiga sæti Birgir Loftsson, tvíburabróður Arnars, og Andrew Fomychov, skráður til heimilis í Bretlandi. Bræðurnir hafa áður haft áform um drykkjarvöruframleiðslu hér á landi.

Í Fréttablaðinu árið 2010 var greint frá því að félag bræðranna, Iceland Beverage Comapany hefðu náð samkomulagi við fyrirtækjasamstæðuna Finnburg Switzer International og fjársterkan Breta um að reisa vodkaverksmiðju á Íslandi. Bygging verksmiðjunnar hófst aldrei. Arnar segir fréttina hafa verið ótímabæra og hefði aldrei átt að fara í loftið þar sem erlendu aðilarnir hafi dregið sig út úr verkefninu. Nú séu nýir aðilar sem vilji reisa verksmiðju með þeim.

Á heimasíðu Iceland Beverage Comapany, sem enn er virk, er fullyrt að fyrirtækið framleiði, flytji úr landi, dreifi, markaðsetji og selji vatn, bæði í flöskum og gámum. Ríflega ár er síðan fyrst var gefið út á síðunni að fyrirtækið seldi vatn í gámum.

Bræðurnir gefa sig út fyrir að bjóða upp á ýmis fjárfestingaverkefni í fjölmörgum heimsálfum.
„Það er verið að vinna í því, það er verið að leita að lóð og svo framvegis,“ segir Arnar um fullyrðingarnar á heimasíðu fyrirtækisins. Þá gefa þeir sig einnig út fyrir Vodkaframleiðslu undir merkjum, SIF Spirits of Valkyrie Vodka. Arnar segir tíðinda vænta af þeirri framleiðslu innan skamms.

Á annari heimasíðu þeirra bræðra, Alhus.com, gefa þeir sig einnig út fyrir Vodka og vatnsframleiðslu. Þar segjast bræðurnir einnig bjóða upp á ýmis fjárfestingaverkefni. Til að mynda selji þeir jarðvarma- og vindaflsvirkjanir, sólarorkuver í Afríku og Evrópu, hótel í Mexíkó og Tælandi, gullnámur í Afríku og Suður Ameríku, verslunamiðstöðvar, veitingastaði vínekrur svo eitthvað sé nefnt.

„Það gekk ekkert upp, það var bara failure, það var bara verið reyna, það var nokkuð sem fór fór ekkert af stað.“ segir Arnar. Upplýsingarnar eru þó enn aðgengilegar á heimasíðu félagsins. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×