Viðskipti innlent

Vaxtakostnaðurinn vegna Icesave-krafnanna hefur ekki verið reiknaður

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
"Í íslensku samhengi eru þessar fjárhæðir mjög háar,“ segir formaður stjórnar Tryggingasjóðs innistæðueigenda.
"Í íslensku samhengi eru þessar fjárhæðir mjög háar,“ segir formaður stjórnar Tryggingasjóðs innistæðueigenda. Vísir/Getty
Ekki er ljóst hversu miklum vöxtum kröfur Breta og Hollendingar hafa safnað eftir að mál þeirra gegn Tryggingasjóði innistæðueigenda á Íslandi var höfðað fyrir íslenskum dómstólum. EFTA-dómstólinn hefur fengið þrjár spurningar er varða hvort tilhögun sjóðsins á Icesave-kröfunum stenst EES-samninginn.



Guðrún Þorleifsdóttir, formaður stjórnar tryggingasjóðsins, segir að lítið sé að gerast í málinu. Beðið sé eftir að svör berist frá EFTA-dómstólnum vegna spurninga Breta og Hollendinga.



„Já, það er rétt að í íslensku samhengi eru þessar fjárhæðir mjög háar. Það liggur fyrir í fréttatilkynningunni frá sjóðnum frá því í fyrra hverjar stefnufjárhæðir eru en vaxtaútreikningur og slíkt hefur ekki farið fram alveg nýlega hjá okkur en á sínum tíma voru þetta á annað þúsund milljarðar samanlagt,” segir hún.



Gunnar Viðar, lögmaður TIF, segir alltaf óvissu þegar mál fara fyrir dómstóla. Þetta mál sé einnig annarskonar en þegar ríkið vann Icesave-málið fyrir EFTA-dómstólnum.



„Fyrsta spurningin sem liggur fyrir er kannski lykilspurning í málinu. Það er spurningum um hvort að greiðsluskylda TIF geti takmarkast við lægri fjárhæð heldur en þessar 20 þúsund evrur eða svo sem tilskipunin kveður á um í þessu tilviki þegar um allsherjar hrun á fjármálamarkaið er að ræða og það liggur fyrir að ekki eru til nægilegir fjármunir hjá sjóðnum til að mæta þessum kröfum og ekki möguleiki heldur að leggja þær álögur á bankakerfið sem þyrfti til að standa undir greiðslum á slíkum kröfum,“ segir hann.



Ekki liggur fyrir hvenær svör munu berast frá EFTA-dómstólnum en málsaðilar vinna nú að greinargerðum með sjónarmiðum sínum sem lagðar verða fyrir dóminn áður en hann svarar með áliti sínu. Guðrún segist ekki eiga von á að málflutningur í málinu fyrir héraðsdómi. verði fyrr en eftir sumarleyfi.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×