Viðskipti innlent

„Verið að blekkja neytandann“

Birgir Olgeirsson skrifar
Rakel Garðarsdóttir er forsvarsmaður samtakanna Vakandi en hún segir Freyju varpa ábyrgð um umhverfisvernd yfir á neytendur með þessum umbúðum.
Rakel Garðarsdóttir er forsvarsmaður samtakanna Vakandi en hún segir Freyju varpa ábyrgð um umhverfisvernd yfir á neytendur með þessum umbúðum.
„Fyrir það fyrsta er verið að blekkja neytandann,“ segir Rakel Garðarsdóttir, forsvarsmaður samtakanna Vakandi, um kassa af Smádraumi frá Freyju. Mynd af kassanum var birt á Facebook og hefur verið dreift víða á samfélagsmiðlunum. Finnst mörgum ansi mikið magn af umbúðum fara undir þessa tólf bita sem eru í kassanum.

Vakandi eru samtök sem vilja auka vitundarvakningu um sóun matvæla en Rakel segir verið sé að brjóta á neytandanum og umhverfinu í þessu tilviki.

Ábyrgð varpað á neytendur

„Neytandinn sér ekki inn í kassann þegar hann er út í búð og heldur kannski að hann sé fullur,“ segir Rakel og bendir á að Freyja noti of mikið af pappír og plasti í þessu tilviki.

„Og varpar þannig allri ábyrgð á neytandann. Þetta er allt of mikið af umbúðum sem fer út í verðið og svo þarf neytandinn að flokka ruslið. Það er líka kostnaður fyrir neytandann. Þetta eru allt of stórar umbúðir og ég hélt að fyrirtækin væru komin lengra og bæru samfélagslega ábyrgð en það er greinilega ekki þannig,“ segir Rakel.

Bitum fækkað úr 24 í 12 til að mæta kröfum neytenda

Pétur Blöndal er forstjóri Freyju. Hann segir að áður fyrr hafi verið 24 bitar í þessum kössum af Smádraumi en fyrirtækið hafi ákveðið að fækka þeim niður í 12 til að lækka verðið. Kassinn hafi sömuleiðis verið minnkaður við þá breytingu.

„Við höfum annað slagið fengið ábendingar um þetta og þá höfum við bent fólki á að þetta var meira og helmingi dýrara. Þá var þetta orðin hálfgerð fjárfesting að kaupa sér smádraum. Þetta var bara krafa frá okkar viðskiptavinum að hafa þetta svona. Það má alltaf deila um umbúðirnar. Við höfum verið meðvitaðir um að vera umhverfisvænni og auðvitað er það ódýrara að vera með minni umbúðir,“ segir Pétur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×