Viðskipti innlent

Hækka vexti og boða frekari hækkanir

Samúel Karl Ólason skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Katrín Ólafsdóttir fulltrúi í peningastefnunefnd Seðlabankans.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Katrín Ólafsdóttir fulltrúi í peningastefnunefnd Seðlabankans. Vísir/GVA
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,5 prósent. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því fimm prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu peningastefnunefndar.

Þá telur nefndin að hækka þurfi vexti umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum eigi að tryggja stöðugt verðlag.

Í tilkynningunni kemur fram að hagvöxtur hafi verið 2,9 prósent á fyrsta fjórðungi ársins. Neysla og fjárfesting jukust um 6,4 prósent og þjóðarútgjöld alls um tæplega tíu prósent. Tölur benda til að vöxtur efnahagsumsvifa sé áþekkur maíspá Seðlabankans.

„Þótt verðbólga sé enn lítil hafa verðbólguhorfur versnað verulega miðað við síðustu spá Seðlabankans og verðbólguvæntingar hafa áfram hækkað. Nú eru horfur á að verðbólga verði meiri en bankinn spáði í maí, sem rekja má til þess að þegar hefur verið samið um mun meiri launahækkanir en gert var ráð fyrir í spá bankans.“

Einnig segir að miklar launahækkanir og sterkur vöxtur eftirspurnar gætu grafið undan verðstöðugleika og valdið því að hækka þurfi vexti á ný.

„Horfur um þróun launakostnaðar, hækkun verðbólguvæntinga og vísbendingar um öflugan vöxt eftirspurnar valda því að óhjákvæmilegt er að bregðast nú þegar við versnandi verðbólguhorfum þrátt fyrir að verðbólga sé enn undir markmiði. Enn fremur virðist einsýnt að hækka þurfi vexti umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum eigi að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma litið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×