Viðskipti innlent

Fiskiskipum fækkar

ingvar haraldsson skrifar
vísir/gva
Fiskiskipum fækkaði um 11 milli áranna 2014 og 2013. Í árslok 2014 voru 1685 fiskiskip á skrá hjá Samgöngustofu. Alls voru 773 vélskip á skrá og samanlögð stærð þeirra var um 85.653 brúttótonn. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.

Vélskipum fækkaði um 10 milli ára og minnkaði stærð flotans um 3.825 brúttótonn. Togurum fækkaði um tvo á árinu og voru alls 49 um síðustu áramót. Heildarstærð togaraflotans var 57.444 brúttótonn og hafði minnkað um 2.717 frá árslokum 2013.

Flest fiskiskip á Vestfjörðum

Þá voru flest fiskiskip með skráða heimahöfn á Vestfjörðum í árslok 2014, alls 400 skip, en það eru tæp 23,7% fiskiskipaflotans. Næst flest, alls 323 skip höfðu heimahöfn skráða á Vesturlandi eða 19,2%. Fæst skip voru með skráða heimahöfn á Suðurlandi, 72 alls, en það samsvarar 4,2% af heildarfjölda fiskiskipa.

Opnir bátar voru flestir á Vestfjörðum, 234, og á Vesturlandi 181. Fæstir opnir bátar höfðu heimahöfn á Suðurlandi, alls 19. Vélskip voru einnig flest á Vestfjörðum, 160, en fæst á Suðurlandi, 45 skip. Flestir togarar höfðu skráða heimahöfn á höfuðborgarsvæðinu, alls 10, en níu togarar á Norðurlandi eystra. Fæstir togarar voru skráðir á Vesturlandi, alls þrír segir í frétt Hagstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×