Viðskipti innlent

Formleg tillaga um sölu Landsbankans tilbúin í lok janúar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að allt að 30 prósent hlutur í Landsbankanum verði seldur.
Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að allt að 30 prósent hlutur í Landsbankanum verði seldur.
Bankasýsla ríkisins áformar að skila formlegri tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um sölu á allt að 30 prósent hlut í Landsbankanum fyrir 31. janúar næstkomandi. Í bréfi sem Bankasýslan sendi ráðherra þann 9. september síðastliðinn kemur fram að stofnunin hafi hafið nauðsynlega undirbúningsvinnu fyrir söluna.

Í bréfinu sem undirritað er af Lárusi Blöndal, stjórnarformanni Bankasýslunnar, og Jóni G. Jónssyni, forstjóra, segir að fram til 31. janúar muni Bankasýslan ræða mögulega útfærslu á sölu við Landsbankann hf., stærstu stofnanafjárfesta innan lands (eins og lífeyrissjóði og fjárfestingasjóði) og alþjóðlega fjárfestingabanka sem stofnunin kann svo að kalla til ráðgjafar við formlegt söluferli. Til að tryggja gagnsæi í ferlinu og skapa faglegan umræðugrundvöll um söluna, áætlar stofnunin að birta opinberlega skýrslu síðar á þessu ári um bráðabirgðaniðurstöður sínar. Fram kemur í bréfinu að stuðst hefur verið við svipað fyrirkomulag hjá systurstofnun hennar í Hollandi við undirbúning sölu á eignarhlut í ABN AMRO Group N.V..

Bankasýslan áætlar að þegar formleg ákvörðun ráðherra liggur fyrir verði umsjónaraðilar með sölu ráðnir, áreiðanleikakannanir framkvæmdar og fjárfestakynningar útbúnar. Að því gefnu að stöðugleiki muni ríkja á fjármálamörkuðum og að rekstrarafkoma Landsbankans verði í takti við áætlanir ætti fyrstu sölu á eignarhlut ríkisins í bankanum að vera lokið á seinni hluta árs 2016, í samræmi við þau áform sem fram koma í fjárlagafrumvarpi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×