Viðskipti innlent

Jólatónleikar Baggalúts skila líklega nærri hundrað milljónum í tekjur

ingvar haraldsson skrifar
Uppselt var á alla þrettán jólatónleika Baggalúts um síðustu jól.
Uppselt var á alla þrettán jólatónleika Baggalúts um síðustu jól. vísir/ernir
Gera má ráð fyrir að tekjur af jólatónleikum Baggalúts verði hátt í hundrað milljónir á þessu ári. Miðar á sex jólatónleika Baggalúts í Hátíðarsal Háskólabíós, sem tekur 948 í sæti, seldust upp á klukkustund í gærmorgun. Litlu virðist skipta þó miðaverðið hafi hækkað um þúsund krónur milli ára og sé nú 7.990 krónur. Baggalútur hefur þegar tilkynnt um að fimm tónleikum verði bætt við og mun miðasala á þá hefjast í dag. 

Garðar Þorsteinn Guðgeirsson, stjórnarformaður Baggalúts ehf., gerir ráð fyrir að jólatónleikarnir verði að minnsta kosti jafn margir og í fyrra. Þá léku Baggalútar, hljóðfæraleikarar og leynigestir, alls um 25 manns, fyrir fullu húsi á þrettán tónleikum þar sem gestir voru samtals nærri 12 þúsund. Garðar áætlar að tekjurnar af miðasölunni hafi numið ríflega 70 milljónum króna en fullt verð var 6.990 krónur.

Garðar segir að ágóði af sölunni renni nær allur til tónlistarmannanna á sviðinu, lítið verði eftir í Baggalúts-félaginu.

Samkvæmt síðasta ársreikningi sem Baggalútur skilaði, fyrir árið 2013, námu tekjur af tónleikahaldi 52,5 milljónum króna. Verktakagreiðslur til tónlistarmanna námu 30 milljónum króna og því er um ágætis vertíðarkaup að ræða fyrir þá sem mest hafa upp úr krafsinu. Annar kostnaður vegna tónleikahaldsins árið 2013, til að mynda vegna leigu á húsnæði, tæknibúnaði og þóknana til Miða.is nam samtals 12 milljónum króna.

Hagnaður Baggalúts árið 2013 var 4,7 milljónir króna. Eitt stöðugildi var hjá Baggalúti á árinu og námu laun og launatengd gjöld 3,1 milljón króna. Tekjur af höfundalaunum voru 4,7 milljónir króna.

Árið 2013 gaf Baggalútur út plötuna Mamma þarf að djamma sem tekin var upp í hinu sögufræga Sound Emporium í Nash­ville. Bóka- og geisladiskasala samkvæmt ársreikningnum nam 3 milljónum króna á árinu 2013 en kostnaður vegna framleiðslu geisladiska, hönnunar-, upptöku- og ferðakostnaðar vegna upptöku plötunnar nam alls 9 milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×