Viðskipti innlent

Finnst skemmtilegast að læra

sæunn gísladóttir skrifar
Áshildur Bragadóttir segir að mörg tækifæri séu í að markaðssetja höfuðborgarsvæðið allt gagnvart erlendum ferðamönnum.
Áshildur Bragadóttir segir að mörg tækifæri séu í að markaðssetja höfuðborgarsvæðið allt gagnvart erlendum ferðamönnum. vísir/gva
Áshildur Bragadóttir hefur verið ráðin nýr forstöðumaður Höfuðborgarstofu. Hún tekur við starfinu þann 16. september næstkomandi. Forstöðumaður Höfuðborgarstofu ber ábyrgð á verkefnum sem tengjast ferðamálum. Höfuðborgarstofa rekur fjölþætta upplýsingamiðlun fyrir ferðamenn, meðal annars í gegnum aðalupplýsingamiðstöð höfuð­borgarinnar í Aðalstræti og sér um framkvæmd stórra borgar­hátíða ásamt samráði og ráðgjöf við skipuleggjendur annarra viðburða í borginni.

Áshildur var valin úr hópi 39 umsækjenda. „Það var mikið af hæfu fólki með mikla reynslu meðal umsækjenda. Þannig að það var bara mjög gaman að vera valin úr þessum góða hópi,“ segir Áshildur. Áshildur segir aðspurð starfið leggjast mjög vel í sig. „Að mínu mati er þetta starf sem er með sterkan prófíl og þetta eru umfangsmikil verkefni. Við erum í raun að markaðssetja höfuðborgina fyrir ferðamenn. Þannig að þetta eru gríðarlega spennandi verkefni,“ segir Áshildur.

Áshildur er viðskiptafræðingur með M.Sc. í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands. Frá árinu 2012 hefur hún gegnt stöðu framkvæmdastjóra Markaðsstofu Kópavogs. Áshildur segir að mörg tækifæri séu í að markaðssetja höfuðborgarsvæðið allt gagnvart erlendum ferðamönnum. „Við á Höfuðborgarstofunni erum í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um að vinna saman að þessari markaðssetningu og búa til fleiri tækifæri til að draga ferðamenn að fleiri svæðum innan höfuðborgar­svæðisins,“ segir Áshildur.

Áshildur er gift Björgvini Snæbjörnssyni arkitekt og eiga þau saman fjórar dætur á aldrinum 10-20 ára. Utan vinnunnar stundar hún mikla hreyfingu, hleypur, gengur á fjöll á sumrin og stundar skíði á veturna. Auk þess les hún mikið og fylgist vel með þjóðfélagsumræðunni. „Sömuleiðis hef ég alltaf gaman af því að bæta við mig nýrri þekkingu. Ég hef verið síðustu tvö árin að læra spænsku, og hef áður tekið námskeið í frönsku. Að læra er það skemmtilegasta sem ég geri,“ segir Áshildur og bætir við að í ellinni, þegar hún er hætt að vinna, dreymi hana um að setjast aftur á háskólabekk.

Áshildur er mikil áhugamanneskja um þjóðmál og samfélagið. Hún er fréttafíkill og hefur skoðanir á samfélagsmálum. Hún er líka gríðarlega skipulögð og öflug í því sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún er fljót að sjá stóru myndina og góð í að tengja hluti saman, eins og hún hefur gert hjá Markaðsstofu Kópavogs. Hún er alltaf mjög glaðlynd og jákvæð og tekur öllum verkefnum með mikilli gleði. Hún leysir öll verkefni, ekkert verkefni er of flókið. Hún er höfðingi heim að sækja, býr til ofboðslega góðan mat og öll umgjörð í kringum hana er glæsileg, hún hefur lag á að hafa allt smart og lekkert. Hún er líka ein af þeim sem láta verkin tala.

Ragnheiður Guðmundsdóttir vinkona

Áshildur er einstaklega hugmyndarík, klár, dugleg og drífandi, allt eiginleikar sem hafa nýst í vinnu hennar hjá Markaðsstofu Kópavogs og munu pottþétt gera það hjá Höfuðborgarstofu. Hún er ráðagóð og ráðholl þegar vinir og starfsfélagar þurfa á að halda, en óttast heldur ekki að leita ráða sem er ekki síður mikilvægur eiginleiki. Áshildur er félagslynd og á sæg af góðum vinkonum, vinum og kunningjum, sem er ekki skrítið því hún er svakalega skemmtileg, hress og með húmorinn í lagi.

Sigríður Björg Tómasdóttir samstarfskona






Fleiri fréttir

Sjá meira


×