Viðskipti innlent

MS lækkar mjólkurverð til framleiðenda

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Mjólkursamsalan mun bjóða þeim sem vilja framleiða úr mjólk að fá allt að 300 þúsund lítra af mjólk á ári, á sama verði og MS greiðir til bænda. Þetta er gert til að styrkja smærri framleiðendur og gera nýjum aðilum auðveldara með að hefja rekstur, samkvæmt tilkynningu frá MS.

„...er það einlæg von MS að það muni leiða til þess að framleiðsla á mjólkur¬vörum verði enn fjölbreyttari og gróskumeiri en áður og að fleiri spennandi vörur muni líta dagsins ljós á þessum markaði,“ segir í tilkynningunni.

Þetta fyrirkomulag mun hefjast fyrsta október og standa yfir í þrjú ár. Þá verður árangurinn af breytingunum metinn og framhaldið ræðst af því hvernig til tekst.

Verðið mun þá lækka um 11 prósent frá almennu verði á ógerilsneyddri hrámjólk og felur í sér að MS er að veita öðrum framleiðendum „endurgjaldslausan aðgang að því kerfi sem fyrirtækið rekur til að safna, gæðaprófa og miðla óunninni mjólk.“

Að auki segir að um mikilvægt sanngirnismál sé að ræða og með þessu sé MS að mæta samfélagslegri skyldu með hliðsjón af markaðsstöðu sinni og stærðarhagkvæmni.

„Einnig er þessi ákvörðun tekin með hagsmuni eigenda Mjólkursamsölunnar í huga en það eru um 650 kúabændur um allt land. Þeir munu áfram selja jafnmikla mjólk og áður en vonandi til fleiri framleiðenda sem vilja spreyta sig á því að þróa nýjar og áhugaverðar vörur sem unnar eru úr mjólk. Það gæti haft jákvæð áhrif á mjólkursölu frá bændum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×