Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóður kaupir skuldabréf fyrir 70 milljarða

Birgir Olgeirsson skrifar
Haft er eftir Hermanni Jónssyni, forstjóra Íbúðalánasjóðs, í tilkynningunni að þessi fjárfesting sé stórt skref fyrir sjóðinn.
Haft er eftir Hermanni Jónssyni, forstjóra Íbúðalánasjóðs, í tilkynningunni að þessi fjárfesting sé stórt skref fyrir sjóðinn. Vísir/Vilhelm
Íbúðalánasjóður hefur undirritað samning við dótturfélag Seðlabankans, ESÍ ehf., um kaup á skuldabréfum fyrir 70 milljarða króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði en þar segir að um er að ræða sértryggð skuldabréf með veði í húsnæðislánum útgefin af Arion banka hf. Samningurinn er gerður með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og endanlegt samþykki stjórnar.

Viðskiptin eru sögð hafa jákvæð áhrif á rekstur Íbúðalánasjóðs, en með kaupunum er lausafé sjóðsins sem safnast hefur upp vegna uppgreiðslna og leiðréttingar húsnæðislána síðustu missera, fjárfest í verðtryggðum vaxtaberandi eignum.

Haft er eftir Hermanni Jónssyni, forstjóra Íbúðalánasjóðs, í tilkynningunni að þessi fjárfesting sé stórt skref fyrir sjóðinn. „En fjárfestingin mun strax hafa jákvæð áhrif á afkomuna og styrkja efnahag sjóðsins verulega til framtíðar. Með því að fjárfesta óverðtryggðum hluta lausafjár sjóðsins náum við að tryggja sjóðnum hærri vexti auk þess að verja sjóðinn fyrir áhrifum mögulegra verðbólguskota. Með kaupum á skuldabréfum ESÍ kemur sjóðurinn stórum hluta af uppgreiðslufjármunum sínum aftur í form vaxtaberandi verðtryggðra eigna. Við bíðum nú aðeins niðurstöðu áreiðanleikakannana.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×