Fastir pennar

Styrkjum sveitirnar

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Náttúruöflin minntu hressilega á sig í gær og fyrradag með tilheyrandi fréttum af fjúkandi þökum, rafmagnsleysi og niðurfellingu flugs ásamt öðru. Ómissandi þáttur í þessari umfjöllun er hlutverk björgunarsveitanna. Björgunarsveitir sinntu hátt á fjórða hundrað verkefnum í óveðrinu sem gekk yfir landið og hátt í átta hundruð manns komu að óveðursaðstoð, lokunum vega, aðstoð við veitufyrirtæki og viðbragðsstöðu.

Við búum á svæði þar sem allra veðra er bókstaflega von. Það er engin leið að geta verið viss um að verið sé að klæða sig eftir veðri að morgni, oftar en ekki er tíðin allt önnur að kvöldi. Svitakóf á skrifstofunni og tilheyrandi ofkæling stuttermaklæddra vinnufélaga vegna galopinna glugga er algeng. Útivist getur undir ákveðnum kringumstæðum einfaldlega verið stórhættuleg.

Björgunarsveitirnar hafa það formlega hlutverk að starfa að björgun, leit og gæslu í þágu almennings. Þær bjarga mannslífum og verðmætum og verkefnin eru fjölbreytt, allt frá björgun úr snjóflóðum eða sjávarháska til leitar að týndu fólki eða sjúkragæslu á ýmsum viðburðum. Íslensku björgunarsveitirnar hafa unnið óteljandi afrek í gegnum tíðina. Mannslífin sem þær hafa bjargað eru óteljandi, hetjusögurnar hver annarri ótrúlegri og þjóðin getur verið og er þakklát fyrir það fórnfúsa starf sem sjálfboðaliðar björgunarsveitanna inna af hendi þegar vá knýr dýra hér á þessu óútreiknanlega skeri. Með fjölgun ferðamanna fjölgar verkefnum björgunarsveitanna. Hingað til hefur það ekki tíðkast að þeir tryggi sig sérstaklega, til að mynda ef þeir ætla sér inn á hálendið, en slíkt fyrirfinnst til að mynda í Ölpunum.

Á þessu ári fengu sveitirnar í gegnum Slysavarnafélagið Landsbjörg 165,2 milljónir frá ríkinu. Samkvæmt fjárlögum munu 167,6 milljónir falla í þeirra skaut á næsta ári. Í flestum vestrænum löndum eru það ríkisreknir herir sem kallaðir eru út til að sinna björgunarstörfum, en á Íslandi eru það sjálfboðaliðar. Björgunarsveitirnar eru að mestu fjármagnaðar með sjálfsaflafé, söfnunum og sölumennsku. Þannig má segja að björgunarsveitirnar spari ríkinu ómældar upphæðir á ári hverju.

Rekstur björgunarsveita er eðli málsins samkvæmt dýr. Það þarf bíla, búnað og tæki ásamt sífelldri þjálfun og endurmenntun. Kröfur sem gerðar eru til björgunarsveitarmanna eru miklar og allt þetta er gert meira og minna án aðkomu ríkisins. Þrátt fyrir það eru sveitirnar gríðarlega stór hluti almannavarnakerfis hins opinbera.

Það er skylda okkar landsmanna að styðja og styrkja björgunarsveitirnar. Dagar eins og þeir í upphafi vikunnar minna á hversu ómetanlegt starf sjálfboðaliða sveitanna er og dagar þar sem náttúran eða slys valda manntjóni minna okkur enn frekar á það. Betur ætti að standa að fjármögnun sveitanna af hálfu hins opinbera – mun betur. En þangað til leggjum við okkar af mörkum hvert og eitt – maður veit nefnilega aldrei hvenær röðin kemur að manni sjálfum.






×