Talaði íslensku við Ísak

23. nóvember 2015
skrifar

Förðunarfræðingurinn Ísak Freyr Helgason birti nýlega mynd af sænsku leikkonunni Noomi Rapace á Instagramsíðu sinni en hann sá til þess að hún væri vel til höfð á rauða dreglinum á bresku tískuverðlaununum sem fóru fram í kvöld. 

Ísak, sem starfar sem förðunarfræðingur í London og er á mála hjá umboðsskrifstofunni Inparlour, var yfir sig hrifinn af Rapace en eins og kemur fram á Instagramsíðu hans þá kom honum skemmtilega á óvart að leikkonan talaði við hann á góðri íslensku á meðan hann málaði hana. 

Rapace flutti til Íslands ásamt móður sinni og stjúpföður, nánar tiltekið á Flúði, og hefur greinilega engu gleymt þegar kemur að tungumálinu. Nýverið komu upp sögusagnir þess efnis að hún muni leika Amy Winehouse í kvikmynd byggðri á ævi söngkonunnar.