Viðskipti innlent

Landsbankinn hagnast um 12 milljarða

ingvar haraldsson skrifar
Rekstur Landsbankans gengur betur í ár en í fyrra að sögn bankastjórans.
Rekstur Landsbankans gengur betur í ár en í fyrra að sögn bankastjórans. Vísir/Andri Marinó
Landsbankinn hagnaðist um 12 milljarða króna á þriggja mánaða tímabilinu frá byrjun júlí til loka september. Hagnaðar bankans á fyrstu mánuðum níu mánuðum ársins er því 24,4 milljarðar króna. Hagnaðurinn nú er að stórum hluta sagður skýrast af bakfærslu varúðarfærslu vegna gengislána til fyrirtækja.

Eigið fé Landsbankans, sem er í eigu ríkisins, er nú orðið 252,5 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall er 29,2 prósent.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir í tilkynningu að afkoma Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins sé góð og betri en á sama tíma í fyrra.

„Arðsemi eiginfjár eftir skatta er 13,5% og fjárhagslegur styrkur bankans er mikill. Á 3. ársfjórðungi munar mikið um áhrif af dómum Hæstaréttar í málum nr. 34/2015 og 35/2015 sem vörðuðu ágreining um gengislán til stærri fyrirtækja. Vegna fordæmisgildis dómanna bakfærir bankinn varúðarfærslu frá 2012 sem hefur jákvæð afkomuáhrif upp á 6,8 milljarða króna, eftir skatta,“ segir Steinþór.

Þá telur bankastjórinn að rekstur bankans muni halda áfram að batna. „Fjármögnun bankans hefur styrkst verulega undanfarið með útgáfu skuldabréfa á erlendum fjármálamarkaði. Þá hafa innlán og útlán aukist töluvert.“

Hins vegar bendir Steinþór á að búast megi við að nokkuð hægi á útlánsvexti á næstu mánuðum og að innlán minnki í kjölfar samþykkis nauðasamninga slitabúanna og skrefa í afnámi fjármagnshafta. „Vegna þessa má búast við að efnahagsreikningur Landsbankans minnki um allt að 10%. Bankinn leggur mikla áherslu á sterka lausafjárstöðu og er því vel undirbúinn fyrir þessar breytingar,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×