Viðskipti innlent

Mikilvægt að bankar séu ekki reknir eins og spilavíti

Heimir Már Pétursson skrifar
Formaður efnahags- og viðskiptanefndar segir mikilvægt að bankarnir verði í íslenskri eigu og að þeir verði reknir fyrir samfélagið en ekki eins og spilavíti.
Formaður efnahags- og viðskiptanefndar segir mikilvægt að bankarnir verði í íslenskri eigu og að þeir verði reknir fyrir samfélagið en ekki eins og spilavíti. vísir/vilhelm
Formaður efnahags- og viðskiptanefndar segir mikilvægt að viðskiptabankarnir verði ekki reknir eins og spilavíti líkt og á árum áður,  heldur til að þjóna samfélaginu. Það gæti því orðið farsæl lausn að kröfuhafar í þrotabú Glitnis afhentu ríkissjóði Íslandsbanka sem þá muni eiga bankann að fullu.

Hinn 8. júní 2015 birti fjármála- og efnahagsráðuneytið tillögur hóps kröfuhafa Glitnis og ráðgjafa hans um aðgerðir til að greiða fyrir lokum slitameðferðar Glitnis. Fjármálaráðuneytið greindi síðan frá því á vef ráðuneytisins snemma í morgun að hópur kröfuhafa Glitnis hf. hefði í gær lagt til breytingar á fyrri tillögu sinni.

Sem hluti af stöðugleikaframlagi muni Glitnir afsala öllu hlutafé ISB Holding ehf., sem er eigandi 95% hlutafjár Íslandsbanka hf., til stjórnvalda. Eigið fé Íslandsbanka nam um 185 ma.kr. í lok júní 2015. Vegna þessarar breytingar myndu eftirfarandi þættir í fyrri tillögum kröfuhafa Glitnis falla niðurniður:

Afkomuskiptasamningur um arðsemi hlutafjár Íslandsbanka, skilyrt skuldabréf að fjárhæð 119 ma.kr., arðgreiðsla Íslandsbanka í erlendum gjaldeyri að fjárhæð 16 ma.kr. til Glitnis og aðrar fyrirhugaðar arðgreiðslur. Framsal lausafjáreigna, reiðufjár og ígildi reiðufjár, muni samkvæmt framangreindri tillögu lækka um 16  ma.kr. vegna fyrirhugaðrar arðgreiðslu í erlendum gjaldeyri til Glitnis, sem ekki verði af og 36 ma.kr. vegna annarra breytinga sem felist í endurskoðuðum tillögum kröfuhafa Glitnis.

Frosti Sigurjónsson formanni efnahags- og viðskiptanefndar lýst vel á þessar hugmyndir með þeim fyrirvara að hann eigi eftir að fá nánari útlistun á tillögu kröfuhafanna.

„Vegna þess að með þessu ef ég skil þessar fyrstu fréttir rétt, en ég tek fram að ég á eftir að fá betri yfirferð yfir málið, muni minna af krónum verða breytt í gjaldeyri með þessu móti og áhrifin af slitum búsins verði minni á greiðslujöfnuðinn,“ segir Frosti.

Hann hafi alltaf verið þeirra skoðunar að lausnin á gjaldeyrisvandanum vegna þrotabúa bankanna væri að erlendir kröfuhafar skildu bankana eftir í íslenskri eigu.

Myndir þú þá vilja að Íslandsbanki yrði til framtíðar í eigu íslenska ríkisins?

„Það er síðan allt önnur spurning. Ég hef ekki mótað mér afstöðu í því. Ég held að það sé ekki endilega æskilegt til lengri tíma séu allir bankar í eigu ríkisins. En ég hef talað fyrir því hingað til að á meðan það er fákeppni á markaðnum sé mjög mikilvægt að alla vega einn banki rekinn með þeim sjónarmiðum að þjóna samfélaginu og skila hóflegum hagnaði en ekki hámarka hagnað. Þá gæti verið hlutverk fyrir ríkið að eiga einn slíkan banka,“ segir Frosti.

Hins vegar sé hann sannfærður um að það sé mikilvægt að bankarnir séu ekki í eigu erlendra aðila.

„Bankar búa ekki til gjaldeyri með sinni starfsemi. Hins vegar þarf alltaf að breyta arðinum yfir í gjaldeyri, sem þannig þarf þá að koma úr okkar gjaldeyrisforða. Þannig að ég tel að það sé mjög mikilvægt að við rekum okkar banka og þessir bankar séu ekki spilavíti eins og þeir voru orðnir fyrir hrun, heldur séu bankar sem þjóna hagkerfinu og samfélaginu,“ segir Frosti Sigurjónsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×