Þakkarskuldir Guðmundur Andri Thorsson skrifar 12. október 2015 07:00 Illugi Gunnarsson stendur í þakkarskuld við Hauk Harðarson. Sá síðarnefndi hljóp undir bagga með Illuga og keypti af honum íbúð og leigir honum svo; einnig hefur komið fram þriggja milljóna greiðsla fyrir ráðgjafarstörf til ráðherrans frá Orku energy, fyrirtæki Hauks sem Illugi starfaði um hríð hjá, og virðist einna helst hafa verið fyrirframgreiðsla á eftirágreiddum launum – eða var það öfugt? Illugi er ráðherra menntamála og áhrifamaður innan Sjálfstæðisflokksins en Haukur er forstjóri Orku energy (einkennilega staglsamt nafn), einkafyrirtækis í orkuvinnslu, sem gæti átt mikið undir velvilja og fyrirgreiðslu stjórnvalda. Blaðið Stundin hefur haldið uppi þráfaldlegum spurningum til Illuga um þessi tengsl en hann ekki verið til viðtals um þau, fyrr en nú að hann kaus að tala við Fréttablaðið til að útskýra sína hlið. Þar segir hann að auðvelt sé að vera vitur eftir á. Við hin sjáum stjórnmálamann sem ekki segir frá hagsmunatengslum sínum nema nauðbeygður.Eftiráviska og fyrirframgreiðsla Tvennt er til vitnis um að stjórnmálamenn séu í vandræðum: það er þegar þeir þurfa að velja sér fjölmiðla sem þeir treysta sér til að svara spurningum frá, og svo er hitt sem er óbrigðull vitnisburður um að stjórnmálamaður sé í verulegum vanda: þegar þeir segja að auðvelt sé að vera vitur eftir á. Er það? Ætli það hljóti ekki að vera erfitt að vera vitur eftir á? Það táknar að maður hefur verið heimskur fyrirfram. Þetta er eitt af þessum fáránlegu orðatiltækjum sem hafa fest rætur í íslenskri orðræðu og hljóma ævinlega úr munni þeirra sem uppvísir hafa verið að einhverjum heimskupörum. Eflaust er það rétt sem verjendur Illuga hafa nefnt, að Orka energy hefði fengið að kynna lausnir sínar í Kína í ferð forseta Íslands þangað, hvað sem líður tengslum fyrirtækisins við Illuga – en þá hefði Illugi líka betur haldið sig fjarri þeim fundarhöldum, í stað þess að ljá fyrirtækinu einhvers konar ráðherravottun með nærveru sinni þar. Hvaða hlutverki gegndi hann á fundinum? Var hann ennþá að sinna ráðgjafarstörfum eða var hann þarna sem ráðherra menntamála á Íslandi? Að fjalla um orkumenntamál? Hér er fámenni og návígi: frændsemi og ættavensl, gamlar skólasamvistir, vinahópasniðmengi. Samskipti eru óformleg og fara fram undir radar – í matarboðum, í sturtuklefum, við snaga á leikskólum og þannig mætti áfram telja: við rekumst hvert á annað öllum stundum og smám saman verður til hjá okkur net hagsmuna- og kunnleikatengsla, sem ekki er neikvætt fyrirbæri í sjálfu sér – síður en svo: þetta er samfélagið, þar sem við fylgjumst hvert með öðru og hjálpumst jafnvel að, þegar svo ber undir og einhver þarf á slíku að halda. Það er gott. Og gott er að Illugi Gunnarsson eigi góðan vin í Hauki Harðarsyni. Þess getum við vel unnt honum. Það breytir því hins vegar ekki að trúverðugleiki Illuga sem ráðherra hefur beðið hnekki. Það verður líka að segjast eins og er að manni þykir hann hafa valdið margvíslegum vonbrigðum í störfum sínum sem ráðherra. Hann stóð ekki vörð um það eina sem skiptir raunverulegu máli í því að efla lestur og læsi – að gera lesefni aðgengilegt fyrir börn og ungmenni; skólabókasöfn eru svelt, bókaútgáfa er skattlögð; hann hefur ekkert hirt um að koma þaki yfir höfuðið á náttúruminjasafni jafnvel þótt tóm og tilgangslaus Perlan standi þar til boða; tilkynning ríkisstjórnarinnar frá í vor um að ráðast nú loks í að reisa Hús íslenskra fræða fyrir 2018 hvarf aftur ofan í Holu íslenskra fræða og sá hvergi stað í fjárlagafrumvarpinu þegar kom fram á haust; hann hefur búið til kommisara-apparat í menntamálum sem virðist líta á það sem hlutverk sitt að fjandskapast við kennara og innleiða bandprjónsaðferðina við lestrarkennslu hvað sem það kostar; hann hefur ekki einu sinni getað staðið vörð um starfsemi tónlistarskólanna sem er nú í hættu – og hefur þó tónlistariðkun borið hróður Íslendinga víðar um heiminn en nokkuð annað.Hótun í garð RÚV? Það er ef til vill til marks um þá seinheppni sem hefur einkennt framgöngu Illuga í starfi menntamálaráðherra, að hann skyldi fara að tjá sig sérstaklega um málefni Ríkisútvarpsins í Fréttablaðinu nú um helgina, við sama tækifæri og hann útskýrði loksins sína hlið á samskiptum sínum við Orku energy. Hann fór sem sé að fimbulfamba um að hann væri hugsi yfir fréttastofu Ríkisútvarpsins, hvort starfsemi hennar væri ekki of umfangsmikil á tímum þegar nóg framboð sé á efni frá erlendum fréttaveitum – kannski vill hann bara að fólk horfi á Fox, það er ekki gott að vita hvað bærist í höfði ráðherrans, en óneitanlega eru þessar vangaveltur sérlega óheppilegar fyrir hann og RÚV svona í beinu samhengi við það að hann þarf nú sjálfur að búa við fréttaflutning og eftirgrennslanir fréttamanna og blaðamanna um þakkarskuldir sem hann vill sem minnst ræða. Fyrir vikið koma þessar bollalengingar út eins og hótun, af því tagi sem Vigdís Hauksdóttir varð alræmd fyrir, þegar hún minnti á stöðu sína í fjárveitingarnefnd og setti í samhengi við óánægju sína með fréttaflutning RÚV. Það þarf að vera hafið yfir allan vafa að stjórnmálamenn nýti ekki aðstöðu sína við útdeilingu gæða og hygli þeim sem þeir kunna að standa í þakkarskuld við – og því er æskilegt fyrir stjórnmálamenn (líkt og dómara – og fréttamenn) að vera eins og mögulegt er óháðir öðrum um fjármál. Og stjórnmálamenn verða að stilla sig um að beita valdi sínu gagnvart almannastofnunum til að jafna persónulegar sakir eða reyna að þagga niður í frjálsri umræðu frjálsra fjölmiðla sem starfa í þágu almennings og upplýstrar umræðu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Illugi og Orka Energy Mest lesið Ólögleg meðvirkni lækna Teitur Ari Theodórsson Skoðun Mistök eru eitthvað, sem menn gera óvart Ole Anton Bieltvedt Skoðun Er ekki bara best að sýna heiðarleika? Björn Gunnlaugsson Skoðun Þau hýrast enn á Sævarhöfða Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun Skattar eru ekki fúkyrði Þormóður Logi Björnsson Skoðun Innflutt skautun í boði Viðreisnar Hópur ungra Sjálfstæðiskvenna Skoðun Höldum áfram að nýta tækifærin, virkjum til framtíðar og tryggjum orkuöryggi Viktor Klimaszewski Skoðun Afleiðingar verkfallsaðgerða á minnstu börnin - krafa um svör Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir Skoðun Gott umhverfi er gott fyrir okkur Pall Jakob Líndal Skoðun Fámennt ríki á jaðrinum Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun
Illugi Gunnarsson stendur í þakkarskuld við Hauk Harðarson. Sá síðarnefndi hljóp undir bagga með Illuga og keypti af honum íbúð og leigir honum svo; einnig hefur komið fram þriggja milljóna greiðsla fyrir ráðgjafarstörf til ráðherrans frá Orku energy, fyrirtæki Hauks sem Illugi starfaði um hríð hjá, og virðist einna helst hafa verið fyrirframgreiðsla á eftirágreiddum launum – eða var það öfugt? Illugi er ráðherra menntamála og áhrifamaður innan Sjálfstæðisflokksins en Haukur er forstjóri Orku energy (einkennilega staglsamt nafn), einkafyrirtækis í orkuvinnslu, sem gæti átt mikið undir velvilja og fyrirgreiðslu stjórnvalda. Blaðið Stundin hefur haldið uppi þráfaldlegum spurningum til Illuga um þessi tengsl en hann ekki verið til viðtals um þau, fyrr en nú að hann kaus að tala við Fréttablaðið til að útskýra sína hlið. Þar segir hann að auðvelt sé að vera vitur eftir á. Við hin sjáum stjórnmálamann sem ekki segir frá hagsmunatengslum sínum nema nauðbeygður.Eftiráviska og fyrirframgreiðsla Tvennt er til vitnis um að stjórnmálamenn séu í vandræðum: það er þegar þeir þurfa að velja sér fjölmiðla sem þeir treysta sér til að svara spurningum frá, og svo er hitt sem er óbrigðull vitnisburður um að stjórnmálamaður sé í verulegum vanda: þegar þeir segja að auðvelt sé að vera vitur eftir á. Er það? Ætli það hljóti ekki að vera erfitt að vera vitur eftir á? Það táknar að maður hefur verið heimskur fyrirfram. Þetta er eitt af þessum fáránlegu orðatiltækjum sem hafa fest rætur í íslenskri orðræðu og hljóma ævinlega úr munni þeirra sem uppvísir hafa verið að einhverjum heimskupörum. Eflaust er það rétt sem verjendur Illuga hafa nefnt, að Orka energy hefði fengið að kynna lausnir sínar í Kína í ferð forseta Íslands þangað, hvað sem líður tengslum fyrirtækisins við Illuga – en þá hefði Illugi líka betur haldið sig fjarri þeim fundarhöldum, í stað þess að ljá fyrirtækinu einhvers konar ráðherravottun með nærveru sinni þar. Hvaða hlutverki gegndi hann á fundinum? Var hann ennþá að sinna ráðgjafarstörfum eða var hann þarna sem ráðherra menntamála á Íslandi? Að fjalla um orkumenntamál? Hér er fámenni og návígi: frændsemi og ættavensl, gamlar skólasamvistir, vinahópasniðmengi. Samskipti eru óformleg og fara fram undir radar – í matarboðum, í sturtuklefum, við snaga á leikskólum og þannig mætti áfram telja: við rekumst hvert á annað öllum stundum og smám saman verður til hjá okkur net hagsmuna- og kunnleikatengsla, sem ekki er neikvætt fyrirbæri í sjálfu sér – síður en svo: þetta er samfélagið, þar sem við fylgjumst hvert með öðru og hjálpumst jafnvel að, þegar svo ber undir og einhver þarf á slíku að halda. Það er gott. Og gott er að Illugi Gunnarsson eigi góðan vin í Hauki Harðarsyni. Þess getum við vel unnt honum. Það breytir því hins vegar ekki að trúverðugleiki Illuga sem ráðherra hefur beðið hnekki. Það verður líka að segjast eins og er að manni þykir hann hafa valdið margvíslegum vonbrigðum í störfum sínum sem ráðherra. Hann stóð ekki vörð um það eina sem skiptir raunverulegu máli í því að efla lestur og læsi – að gera lesefni aðgengilegt fyrir börn og ungmenni; skólabókasöfn eru svelt, bókaútgáfa er skattlögð; hann hefur ekkert hirt um að koma þaki yfir höfuðið á náttúruminjasafni jafnvel þótt tóm og tilgangslaus Perlan standi þar til boða; tilkynning ríkisstjórnarinnar frá í vor um að ráðast nú loks í að reisa Hús íslenskra fræða fyrir 2018 hvarf aftur ofan í Holu íslenskra fræða og sá hvergi stað í fjárlagafrumvarpinu þegar kom fram á haust; hann hefur búið til kommisara-apparat í menntamálum sem virðist líta á það sem hlutverk sitt að fjandskapast við kennara og innleiða bandprjónsaðferðina við lestrarkennslu hvað sem það kostar; hann hefur ekki einu sinni getað staðið vörð um starfsemi tónlistarskólanna sem er nú í hættu – og hefur þó tónlistariðkun borið hróður Íslendinga víðar um heiminn en nokkuð annað.Hótun í garð RÚV? Það er ef til vill til marks um þá seinheppni sem hefur einkennt framgöngu Illuga í starfi menntamálaráðherra, að hann skyldi fara að tjá sig sérstaklega um málefni Ríkisútvarpsins í Fréttablaðinu nú um helgina, við sama tækifæri og hann útskýrði loksins sína hlið á samskiptum sínum við Orku energy. Hann fór sem sé að fimbulfamba um að hann væri hugsi yfir fréttastofu Ríkisútvarpsins, hvort starfsemi hennar væri ekki of umfangsmikil á tímum þegar nóg framboð sé á efni frá erlendum fréttaveitum – kannski vill hann bara að fólk horfi á Fox, það er ekki gott að vita hvað bærist í höfði ráðherrans, en óneitanlega eru þessar vangaveltur sérlega óheppilegar fyrir hann og RÚV svona í beinu samhengi við það að hann þarf nú sjálfur að búa við fréttaflutning og eftirgrennslanir fréttamanna og blaðamanna um þakkarskuldir sem hann vill sem minnst ræða. Fyrir vikið koma þessar bollalengingar út eins og hótun, af því tagi sem Vigdís Hauksdóttir varð alræmd fyrir, þegar hún minnti á stöðu sína í fjárveitingarnefnd og setti í samhengi við óánægju sína með fréttaflutning RÚV. Það þarf að vera hafið yfir allan vafa að stjórnmálamenn nýti ekki aðstöðu sína við útdeilingu gæða og hygli þeim sem þeir kunna að standa í þakkarskuld við – og því er æskilegt fyrir stjórnmálamenn (líkt og dómara – og fréttamenn) að vera eins og mögulegt er óháðir öðrum um fjármál. Og stjórnmálamenn verða að stilla sig um að beita valdi sínu gagnvart almannastofnunum til að jafna persónulegar sakir eða reyna að þagga niður í frjálsri umræðu frjálsra fjölmiðla sem starfa í þágu almennings og upplýstrar umræðu.
Höldum áfram að nýta tækifærin, virkjum til framtíðar og tryggjum orkuöryggi Viktor Klimaszewski Skoðun
Höldum áfram að nýta tækifærin, virkjum til framtíðar og tryggjum orkuöryggi Viktor Klimaszewski Skoðun