Viðskipti innlent

Hagnaður MP Straums á fyrri árshelmingi 294 milljónir króna

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sigurður Atli Jónsson er bankastjóri MP banka Straums.
Sigurður Atli Jónsson er bankastjóri MP banka Straums. Vísir/GVA
Hagnaður MP Straums á fyrri helmingi ársins 2015 nam 294 milljónum króna. MP banki og Straumur fjárfestingarbanki sameinuðust 29. júní síðastliðinn og lýsir því rekstrarreikningurinn einungis rekstri MP banka á fyrri helmingi ársins auk einskiptisliða vegna samrunans. Helstu einskiptisliðir eru gjaldfærslur vegna hagræðingaraðgerða og starfsloka og tekjufærsla vegna neikvæðrar viðskiptavildar. Að teknu tilliti til einskiptisliða nam hagnaður bankans fyrir skatt 220 milljónum króna, segir í tilkynningu. Hagræðingaraðgerðirnar munu efla rekstur bankans til frambúðar og árangurinn af þeim má sjá strax á þriðja ársfjórðungi 2015.

Eigið fé MP Straums þann 30. júní 2015 nam 7.687 milljónum króna og námu heildareignir 70.847 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall sameinaðs banka nam 18,4% í lok júní samanborið við 17,4% eiginfjárhlutfall MP banka og 20% eiginfjárhlutfall Straums fjárfestingabanka í árslok 2014. Innstæður hjá Seðlabanka og traustum erlendum fjármálastofnunum og veðhæf skuldabréf hjá seðlabönkum voru um 40% af heildareignum bankans í lok júní. 

MP Straumur sameinaði alla starfsemi sína undir einu þaki í Borgartúni 25 í lok ágúst 2015. Starfsemi bankans frá samruna hefur farið vel af stað. Vöxtur hefur verið hjá eignastýringu bankans sem hlaut viðurkenningu World Finance fyrir framúrskarandi árangur annað árið í röð. Eignir í stýringu námu 107 milljörðum króna í lok ágúst 2015. Frá því samruninn varð að veruleika hefur MP Straumur verið með mestu markaðshlutdeild á skuldabréfamarkaði í Kauphöll Íslands (Nasdaq OMX Ísland), 34,2% í ágúst og 24,5% í júlí 2015. Samanlögð markaðshlutdeild MP banka og Straums fjárfestingabanka frá áramótum hefur verið 32,3%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×