Viðskipti innlent

Svigrúm ætti að vera til lækkana

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Forstjóri IKEA á Íslandi hvatti í gær önnur fyrirtæki til að lækka verð hjá sér líkt og IkEA. Forstjórar haga og Byko taka undir að aðstæður í efnahagslífinu séu um margt hagfelldar.
Forstjóri IKEA á Íslandi hvatti í gær önnur fyrirtæki til að lækka verð hjá sér líkt og IkEA. Forstjórar haga og Byko taka undir að aðstæður í efnahagslífinu séu um margt hagfelldar. vísír/haraldur guðjónsson
„Við tökum bara undir það sem framkvæmdastjóri IKEA er að segja,“ segir Ólafur Darri Andrason, deildar­stjóri hagdeildar Alþýðusambandsins (ASÍ).

Ólafur Darri Andrason
Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, upplýsti í viðtali við Morgunblaðið í gær, að fyrirtækið hygðist lækka vöruverð hjá sér um 2,8 prósent að meðaltali þegar félagið kynnir í næstu viku nýjan vöru- og verðlista. Í fyrra lækkaði IKEA vöruverð um fimm prósent. Hann hvetur önnur fyrirtæki til að fylgja fordæmi IKEA og vinna þannig á móti mögulegri verðbólguþróun. Aðstæður nú gefi rými til verðlækkana, enda hafi gengi krónu styrkst gegn evru, kjarasamningar hafi verið fyrirtækjum hagfelldari en búist hafði verið við og velta sé meiri vegna aukinna umsvifa í efnahagslífinu.

Ólafur Darri segir rétt að ytri skilyrði verslunarinnar séu með allra besta móti. „Krónan hefur verið að styrkjast og þá sérstaklega gagnvart evru, og á sama tíma er verðbólga sáralítil í nágrannalöndum okkar, þannig að innflutningsverslunin er ekki að flytja inn verðbólgu frá öðrum löndum.“

Um leið segir Ólafur Darri að hér hafi almennt verið lítil verðbólga, en með styrkingu krónu ættu að skapast tækifæri til að lækka mögulega verð. Í mælingum ASÍ hafi ekki sést miklar hækkanir, en þær sýni svigrúm til lækkana.

„Gengisþróun hefur samt verið nokkuð misjöfn,“ bendir Ólafur Darri um leið á, því þótt krónan hafi styrkst gagnvart helstu viðskiptamyntum, þá hafi hún veikst gagnvart dollaranum.

Finnur Árnason
Finnur Árnason, forstjóri Haga, tekur undir að aðstæður í efnahagslífinu séu um margt hagfelldar, en fyrirtækið bregðist við þróun sem slíkri dag frá degi og hún endur­speglist í verðlagningu. „Við verðleggjum ekki einu sinni á ári eins og þeir.“ Finnur bendir jafnframt á að Hagar birti sínar tölur opinberlega, en félagið er skráð í Kauphöll Íslands. „Fyrstu fimm mánuðir ársins eru ljósir og þar er okkar álagning að lækka.“

Þá segir Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri Byko, fyrirtækið ekki hafa tekið afstöðu til mögulegra frekari verðlagsbreytinga. „Við erum hins vegar í talsvert öðru umhverfi en IKEA,“ segir hann og bendir á að stór hluti innkaupa verslunarinnar eigi sér stað í dollurum. „Og dollarinn hefur hækkað um tæp fimm prósent frá áramótum.“ Fyrirtækið hafi þó ekki hreyft við verðum í á annað ár þótt það hafi tekið á sig hækkanir hjá birgjum erlendis. Tölur fyrirtækisins sýni að unnið hafi verið á sömu álagningu allt þetta ár. „Sem sýnir að verðlækkunin er að skila sér í gegnum tilboðskerfin hjá okkur og svo auðvitað í gegnum breytingar á vörugjöldum og virðisaukaskatti um áramótin.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×