Viðskipti innlent

Risinn á veitingamarkaði: Foodco kaupir Roadhouse

ingvar haraldsson skrifar
Framkvæmdir við opnun Roadhouse sem nú er að komast í eigu Foodco.
Framkvæmdir við opnun Roadhouse sem nú er að komast í eigu Foodco. vísir/stefán
Foodco er við það að festa kaup á veitingastaðnum Roadhouse við Snorrabraut. Starfsmönnum Roadhouse var tilkynnt um kaupin í gær.

Foodco er risi á veitingamarkaði en Roadhouse verður tuttugasti veitingastaðurinn í eigu Foodco. Yfir 400 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu sem á fyrir veitingastaði American Style, Saffran, Eldsmiðjunnar og Aktu Taktu auk þess að eiga Greifann og Pítuna.

Velta Foodco var 3,2 milljarðar árið 2013 en félagið er að mestu í eigu feðganna Þórarins Ragnarssonar og Jóhanns Arnar Þórarinssonar. Feðgarnir eiga 80 prósent hlutafjár í félaginu. Þá á Óttar Þórarinsson 10 prósenta hlut og félagið Eldheimar, sem er í eigu Bjarna Stefáns Gunnarssonar, á 10 prósenta hlut.

Foodco var stofnað árið 2002. Félagið keypti American Style og Aktu Taktu árið 2004. Árið 2006 keypti Foodco svo Pítuna. Ári síðar bættist Eldsmiðjan og Greifinn í safnið. Það var svo árið 2011 sem félagið festi kaup á Saffran.

Hagnast um 1,3 milljarða á fimm árum

Samanlagður hagnaður Foodco á árunum 2009-2013 nam 1,35 milljörðum króna. Fyrirtækið hagnaðist um 403 milljónir króna árið 2013. Það var þó að mestu vegna endurútreiknings lána á árinu en lán félagsins voru færð niður um 376,5 milljónir króna. Félagið hagnaðist um 198 milljónir króna árið 2012. Hagnaður félagsins árið 2011 var 53 milljónir króna en það ár festi félagið kaup á Saffran.  Hagnaður félagsins var 371 milljón króna árið 2010 og 326 milljónir árið 2009.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×