Viðskipti innlent

Actavis verður Allergan

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Húsnæði Actavis á Íslandi.
Húsnæði Actavis á Íslandi.
Tekjur Actavis plc, móðurfélags Actavis á Íslandi, fyrir árið 2014 jukust um 48% í 12,8 milljarða Bandaríkjadala, samanborið 8,7 milljarða dala fyrir árið 2013, ef tekið er tillit til óvenjulegra liða (e. non-GAAP).

Sé ekki tekið tillit til óvenjulegra liða jukust tekjur félagsins (e. GAAP) um 51% í 13,1 milljarð dala, samanborið við 8,7 milljarða fyrir árið 2013.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (e. adjusted EBITDA) jókst um 99% í 4,5 milljarða dala, samanborið við 2,2 milljarða dala árið 2013. Handbært fé frá rekstri fyrir árið 2014 nam 2,2 milljörðum dala.

Ef ekki er tekið tillit til óvenjulegra liða nam tap á hlut 7,42 dölum á árinu, samanborið við 5,27 dala tap á hlut á árinu 2013, sem útskýrist aðallega af hærri afskriftum og kostnaði vegna fyrirtækjakaupa s.s. virðisrýrnun og lögfræðikostnaði.

Í afkomutilkynningu kemur fram að árið 2014 hefur verið umbreytingaár fyrir Actavis. Félagið hefur breyst úr því að vera umsvifamikið samheitalyfjafyrirtæki í alhliða lyfjafyrirtæki með kaupunum á bandaríska frumlyfjafyrirtækinu Forest Laboratories snemma á árinu 2014 og með fyrirhuguðum kaupum á öðru frumlyfjafyrirtæki, Allergan, sem tilkynnt var í nóvember sl. og ráðgert er að gangi í gegn á vormánuðum.

Í kjölfar þessara fyrirtækjakaupa verður Actavis eitt af tíu stærstu lyfjafyrirtækjum heims, með starfsemi í  100 löndum, yfir 30 þúsund starfsmenn og áætlaða ársveltu sem nemur 23 milljörðum bandaríkjadala.

Ákveðið hefur verið að móðurfélag sameinaðs fyrirtækis Actavis og Allergan taki upp nafnið Allergan en sú ákvörðun er háð samþykki hluthafafundar. Actavis nafnið mun halda sér á sviði samheitalyfja á ákveðnum mörkuðum en nánari útfærsla á því er í skoðun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×